Í tilefni kvennaverkfalls er viðbúið að ákveðin þjónusta á vegum Akureyrarbæjar verði skert eða þyngri í vöfum föstudaginn 24. október.
Samtök launafólks ásamt fjölmörgum öðrum baráttusamtökum kvenna og hinsegin fólks standa að deginum, en nú eru 50 ár liðin frá því að konur lögðu fyrst niður störf til þess að krefjast jafnréttis. Konur og kvár, sem það geta, eru hvött til að taka þátt í skipulagðri dagskrá og lágmarka þá vinnu og ábyrgð sem felst í annarri og þriðju vaktinni.
Útifundur fer fram á Ráðhústorgi frá kl. 11.15 til 12.00. Öll eru hvött til að mæta á fundinn og sýna samstöðu í baráttu fyrir launajafnrétti kynjanna.
Hluti af starfsemi sveitarfélaga er með þeim hætti að ekki er mögulegt að leggja hana alfarið niður, líkt og stuðningur við fatlað fólk. Kappkostað verður að tryggja þjónustu á öllum sviðum svo velferð, öryggi og heilsu fólks verði á engan hátt stofnað í hættu.
Með samhentu átaki getum við stuðlað að því að sem flestar konur og kvár geti tekið þátt í deginum. Foreldrar eru hvattir til að hafa börn sín heima eða með sér í vinnu ef mögulegt er, til að auðvelda starfsfólki leikskóla að taka þátt í kvennaverkfallinu. Sundlaugar Akureyrarbæjar verða opnar, en þó má gera ráð fyrir skertri þjónustu.
Umfram allt skulum við sýna samstöðu með konum og kvárum og gera allt sem í okkar valdi stendur til að sem flest geti tekið þátt í deginum.
Orðsending til foreldra barna í frístund:
Þar sem dagskrá útifundar kvenna og kvára á Akureyri hefur verið auglýst frá 11:15 nk. föstudag óskum við eindregið eftir því að foreldrar sem tök hafa á nýti ekki frístund þann dag. Mikil hvatning er í samfélaginu til kvenna og kvára að taka þátt í hátíðarhöldunum og er vilji sveitarfélagsins að gera sem flestum konum og kvárum það kleift.
Það verður því lágmarksstarfsemi í frístund þennan dag. Ef foreldrar sækja börn sín verða gjöld vegna skólatíma felld niður.
Orðsending til foreldra leikskólabarna:
Þar sem dagskrá útifundar kvenna og kvára á Akureyri hefur verið auglýst frá 11:15 nk. föstudag óskum við eindregið eftir því að foreldrar sem tök hafa á sæki börn sín í leikskólann fyrir kl. 11 þann dag. Mikil hvatning er í samfélaginu til kvenna og kvára að taka þátt í hátíðarhöldunum og er vilji sveitarfélagsins að gera sem flestum konum og kvárum það kleift.
Það verður því lágmarksstarfsemi í leikskólum Akureyrarbæjar eftir kl. 11 þennan dag. Fari svo að ekki náist að manna skólann þennan dag er mögulegt að grípa þurfi til fáliðunarstefnu, þ.e. að biðja foreldra um að sækja börn sín. Ef foreldrar sækja börn sín verða gjöld vegna skólatíma felld niður.
Frá þessu segir á heimasíðu Akureyrarbæjar.