Stjórn Framsýnar mótmælir yfirlýsingum FÍB og ákvörðun kjararáðs

Stjórn Framsýnar, stéttarfélags tekur heilshugar undir með stjórn Eyþings er viðkemur sérkennilegum yfirlýsingum Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) varðandi fyrirhuguð Vaðlaheiðagöng og arðsemi þeirra.  

Þess má geta að innan Framsýnar eru um 2000 bílstjórar sem sumir hverjir eru félagsmenn í FÍB. Félagsmenn FÍB á landsbyggðinni hljóta að velta fyrir sér tilgangi félagsins þegar forsvarsmenn þess vinna beinlínis gegn þeirra hagsmunum eins og þessar yfirlýsingar staðfesta, segir í bókun stjórnar Framsýnar.

Einnig sendi stjórnin frá sér ályktun þar sem ákvörðun kjararáðs um hækkun á launum dómara er harðlega gagnrýnd. Þar segir: Framsýn- stéttarfélag telur að kjararáð hafi slegið tóninn í yfirstandandi kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins með því að færa hæstaréttardómurum og dómurum við Héraðsdóm Reykjavíkur á silfurfati 100 þúsund króna hækkun á mánuði.

Framsýn gerir ekki lítið úr því vinnuálagi sem er meðal dómara en það leynist víðar, ekki síst meðal starfsfólks sem starfar hjá opinberum stofnunum þar sem markvisst hefur verið skorið niður í mannahaldi með tilheyrandi álagi og tekjutapi fyrir starfsmenn. Framsýn telur að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins geti ekki horft framhjá þessari staðreynd þegar gengið verður frá kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum. Slíkt væri móðgun við verkafólk. Fólki sem er í dag ætlað að skrimta af 165 þúsund krónum á mánuði sem er langt undir nýlegum viðmiðum um framfærsluþörf. Framsýn tekur undir orð BSRB sem fram koma í nýlegri ályktun sambandsins. Það er ólíðandi að á meðan ríkisvaldið fæst ekki til að ganga frá kjarasamningum við starfsmenn sína skuli kjararáð hækka laun dómara. Þá hvetur Framsýn önnur stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands til að styðja kröfu félagsins um 200.000,- króna lágmarkslaun fyrir launþega landsins þegar í stað.

Nýjast