Um 1068 áhorfendur voru mættir á Þórsvöllinn í kvöld, sem leit ekkert sérlega vel út eftir að hafa kalið síðustu daga.
Leikurinn fór rólega af stað og einkenndist af baráttu og miðjumoði. Heimamenn í Þór voru þó líklegri fyrir framan markið fyrstu mínúturnar en náðu ekki að skapa sér hættuleg færi.
Fyrsta alvöru færið í leiknum kom á 25. mínútu og það fengu Stjörnumenn. Eftir darraðadans í teig í heimamanna datt boltinn fyrir fætur Halldórs Orra Björnssonar, en hann var í litlu jafnvægi og skaut yfir markið af stuttu færi.Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði hálfleiks sem var ekki spennandi á að horfa. Heimamönnum gekk erfiðlega að halda boltanum innan liðsins. Helst skapaðist hætta í kringum Atla Sigurjónsson en Þórsarar féll ítrekað í rangstöðu gildruna.
Staðan markalaus í hálfleik.
Þórsarar fengu dauðafæri eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik. Atli Sigurjónsson átti þá eitraða sendingu inn fyrir vörn gestanna á Svein Elías Jónsson, sem skaut rétt yfir markið. Dauðafæri hjá heimamönnum og þarna hefði Sveinn Elías átt að gera betur.
Stjörnumenn voru meira með boltann næstu mínútur og stjórnuðu leiknum. Á 55. mínútu fékk Stjarnan réttilega dæmda vítaspyrnu, er boltinn fór í hönd Alta Jens Albertssonar inn í vítaeig. Garðar Jóhannsson fór á vítapunktinn og skoraði og kom gestinum 1:0 yfir.
Atli Sigurjónsson kom boltanum í netið fyrir heimamenn um miðjan seinni hálfleikinn en markið var dæmd af vegna rangstöðu.Á 73. mínútu fengu Þórsarar sitt annað dauðafæri í leiknum. Jóhann Helgi Hannesson átti þó laglegan sprett upp völlinn og var kominn einn í gegn en Magnús Karl Pétursson gerði vel í að verja í marki Stjörnunnar.
Aðeins tveimur mínútum síðar sýndi Srdjan Rajkovic fína takta hinu megin í markinu er hann varði frá Jesper Holdt Jensen í dauðafæri. Þórsarar stálheppnir að vera ekki 2:0 undir en leikurinn var aðeins að lifna við á þessum tímapunkti.
Þórsarar voru klaufar að jafna ekki metin þegar tíu mínútur voru til leiksloka. David Disztl fékk þá sennilega besta færi leiksins, er hann fékk sendingu inn í teig frá Jóhanni Helga Hannessyni en einn á móti nánast auðu marki skaut Disztl framhjá.
Hlutirnir gerðust hratt á þessum tíma og hinu megin var Garðar Jóhannsson í dauðafæri einn á móti markmanni, en Srdjan Rajkovic sýndi snilli sína í markinu og varði vel í tvígang. Garðar átti svo fínt skot að marki skömmu síðar en aftur var Rajkovic vel á verði.
Þórsarar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki.
Lokatölur, 1:0 sigur Stjörnunnar sem eru sanngjörn úrslit og geta Þórsarar að hluta til þakkað markverði sínum fyrir hafa ekki tapað stærra.