Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri Strokks segir að hugmyndin sé að byggja upp græna stóriðju og að aðstæður til þess að byggja svona verksmiðju á Akureyri séu þær bestu á landinu. "Með það veganesti getum við farið í þá þróunarvinnu sem nauðsynleg er en sú vinna getur tekið allt að tvö ár. Framleiðslu á koltrefjum fylgir hátækni og þess vegna teljum við að þetta sé eðlilegur hluti af næstu stóriðju á Íslandi." Strokkur hyggst vinna að því að koma á fót verksmiðju sem framleiða mun koltrefjar með tækni sem krefst afhendingar rafmagns til stórnotanda, allt að 15-20 MW, og metangass. Félagið mun vinna að fjármögnun verkefnisins og samningum við erlendan samstarfsaðila sem og samningum um afhendingu þeirrar orku sem nauðsynleg er. Rammasamningurinn er grundvöllur þeirrar vinnu.
Hermann Jón segir að bærinn muni láta byggja söfnunar- og hreinsistöð fyrir metangas á urðunarstaðnum á Glerárdal sem síðan muni sjá verksmiðjunni fyrir því metangasi sem þarf til starfseminnar, 1,5 milljón rúmmetra á ári. Jafnframt mun bærinn tryggja aðgang að lóð fyrir verksmiðjuna á Rangárvöllum. Gangi áætlanir um undirbúning eftir gæti uppbygging hafist í framhaldinu og verksmiðjan verið komin í gang 2012-2014. Ráðgert er að byggja um 10.000 fermetra verksmiðjuhús á Rangárvöllum og um 1.500 fermetra vöruhús. Hermann Jón segir að Atvinnurþróunarfélag Eyjafjarðar hafi unnið að undirbúningi verkefnsins um nokkrun tíma og hann er bjartsýnn á framgang þess. Þetta sé jafnframt stórt og mikilvægt skref í mögulegri atvinnuuppbyggingu í bænum.
Koltrefjar eru notaðar sem styrkingarefni við framleiðslu á margs konar vörum og leysa af hólmi ýmis þekkt smíðaefni í iðnaði svo sem ál, timbur og stál, sérstaklega í iðngreinum þar sem léttleiki og styrkur eru höfð að leiðarljósi. Sem dæmi um notkunarmöguleika á koltrefjum má nefna að flugvélaiðnaðurinn nýtir þetta efni í vaxandi mæli og er ný kynslóð af farþegaþotum smíðuð að verulegu leyti með koltrefjum sem styrkingarefni. Þá sagði Eyþór að koltrefjar séu notaðar til að smíða vindmyllur og kappakstursbíla, m.a. væru um 80% af Ferrari kappakstursbílum koltrefjar. Koltrefjar stuðla, vegna léttleika, að minni orkunotkun, auk þess sem umhverfisáhrif við framleiðslu eru takmörkuð.