Stefnt að aukinni framleiðslu á fiskafóðri á árinu

„Það eru jákvæð teikn á lofti um að bjartara sé framundan í fiskeldinu og við stefnum að því að auka framleiðsluna verulega á þessu ári," segir Gunnar Örn Kristjánsson rekstrarstjóri hjá Fóðurverksmiðjunni Laxá á Akureyri.  Laxá framleiðir og selur fóður til fiskeldis, bróðurparturinn fer á innanlandsmarkað, en ekki hefur gengið sem skyldi að selja fóður frá fyrirtækinu til Færeyja eins og reynt hefur verið.  

Gunnar Örn segir að framleiðslan í fyrra hafi numið um 6.500 tonnum, en var 5.000 tonn árið þar á undan. „Við stefnum að því að framleiða upp undir 10 þúsund tonn á þessu ári," segir hann.  Tveir nýir kaupendur hafa bæst í hópinn, Fjarðalax í Tálknafirði og Dýrfiskur í Dýrafirði.  „Það lítur vel út með fiskeldið og það er að aukast hægt og bítandi," segir Gunnar Örn. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er mun meiri, þannig að hún er ekki fullnýtt, en hann væntir þess að smám saman verði framleitt meira magn í verksmiðjunni og nýtingin verði betri á næstu árum.

Gunnar Örn segir að tækifæri séu fyrir hendi í fiskeldi á Íslandi og í raun eigi Íslendingar ekki að vera eftirbátar Færeyingja í þessum efnum, en þar nemi framleiðslan á bilinu 40 til 50 þúsund tonnum.  Íslendingar framleiði enn sem komið er aðeins um 8.000 tonn.  „Það sem stendur í veginum fyrir því að framleiðslan er ekki meiri en raun ber vitni er að lánastofnanir halda mjög að sér höndum varðandi fyrirgreiðslu til fyrirtækja á sviði fiskeldis. Þar á bæ sjá menn bara rautt þegar minnst er á fiskeldi," segir Gunnar Örn. 

Hann segir aðstæður nú allt aðrar en voru á árum áður þegar illa gekk í fiskeldi, verð á afurðum sé í sögulegu hámarki og þá sé fyrir hendi mun meiri þekking í faginu en var. Stjórnvöld tali um að styðja þurfi við bakið á fyrirtækjum í útflutningi og þeim sem eru í gjaldeyrisskapandi starfsemi, en það virðist í tilviki fiskeldis vera meira í orði en á borði.

„Tækifærin eru til staðar og verð t.d. á laxi er mjög hátt um þessar mundir, það er líka ljóst að við veiðum ekki meira á næstu árum þannig að aukningin hlýtur að koma frá fiskeldi.  Að mínu mati skortir ákveðna framsýni hvað þessa grein varðar, menn eru hræddir vegna þess hvernig til tókst fyrir margt löngu.  Ég er ekki að tala um að fara fram með bægslagangi og látum, heldur gera þetta skynsamlega og byggja greinina upp að nýju," segir Gunnar Örn.

Velta fyrirtækisins jókst umtalsvert á milli ára, var 1,5 milljarðar á liðnu ári, en var um 750 milljónir árið á undan.  Alls starfa 8 manns hjá fyrirtækinu.

Nýjast