Stefán: Nýti tækifærið þegar það gefst

Stefán Guðnason átti góða innkomu í mark Akureyrar í kvöld í sigri gegn Val í N1-deild karla í handbolta, 23:20. Stefán kom inn á um miðjan síðari hálfleikinn eftir að Sveinbjörn Pétursson hafði skipt sér útaf. Sveinbjörn hafði þó engu síður átt fínan leik með 13 skot varin í marki norðanmanna. Stefán nýtti sjensinn vel, varði sjö skot og var ánægður í leikslok er Vikudagur hitti hann að máli.

 

„Maður fær svo sjaldan eitthvað að gera þannig að það er um að gera að nýta það þegar tækifæri gefst. Það kom mér á óvart að Bubbi (Sveinbjörn) skipti sér útaf þar sem hann var búinn að spila vel. Hann er bara svo klikkaður  að maður má alltaf eiga von á þessu,” segir Stefán í léttum tón.

Akureyri náði fram sætri hefnd eftir tapið gegn Val í bikarúrslitunum um sl. helgi.

„Þetta var svakalega sætt. Það er rétt svo farið að glitta í tennurnar á mér núna, maður er búinn að vera grautfúll síðan eftir bikarleikinn. Við vorum lengi í gang og ekki að spila vel en við sýndum það að þetta var slys á laugardaginn í bikarnum. Það eru tveir titlar eftir og við ætlum að taka þá báða,” sagði Stefán.

Valdimar: Dómgæslan skandall

 

Valdimar Fannar Þórsson leikmaður Vals var fámáll í leikslok í spjalli við Vikudag og var ósáttur við dómgæsluna í leiknum.

„Ég er bara gáttaður. Það var leyft mikið í þessum leik og mér fannst dómgæslan vera skandall. Sóknarleikurinn var slakur en frábærir markmenn á báðum endum vallarins. Ég veit ekki hvað ég á að segja, tvö góð lið og tveir slakir dómarar,” sagði Valdimar.  

Nýjast