Þá hafa samtökin sjálf aflað sér um 100 milljóna króna í eigin tekjur til starfseminnar, m.a. söfnunarfé, með styrkjum og ágóða af rekstri spilakassa. Öflugir styrkveitendur hafa gengið úr skaftinu hver á fætur öðrum þannig að samdráttur í tekjum á þeim vettvangi blasir einnig við. „Þetta er mjög alvarleg staða og veldur okkur ugg og það sama má segja um okkar skjólstæðinga. Þeir hafa sett sig í samband við okkur og spyrja hvenær verði lokað og við finnum fyrir ótta hjá fólki," segir Anna Hildur.
Starfsemi hófst á vegum SÁÁ á Akureyri fyrir 20 árum, en SÁÁ-Norðurland opnaði fyrst aðstöðu í bænum árið 1989 og hefur áfengisráðgjafi verið starfandi þar upp frá því. SÁÁ-Norðurland sameinaðist SÁÁ árið 1993. Um 2000 viðtöl eru tekin á skrifstofunni á Akureyri á ári hverju, ráðgjafinn fer að auki einu sinni í mánuði til Sauðárkróks og Húsavíkur og sinnir fólki af öllu Norðurlandi. Einnig leitar fólk af Austfjörðum til samtakanna á Akureyri. Alla daga er eitthvað um að vera, konur hittast á mánudögum, eftirfylgnihópur stráka sem verið hafa á Staðarfelli er á miðvikudögum og á fimmtudögum er fundur fyrir aðstandendur auk þess sem af og til eru haldin helgarnámskeið um ýmis efni. „Þetta er fjölbreytt starfsemi og hefur skilað árangri," segir Anna Hildur.
Færumst 20 til 30 ára aftur í tímann
„Verði starfseminni hér lokað færumst við 20 til 30 ár aftur í tímann hvað varðar úrræði í meðferðarmálum. Allir landsmenn munu þá þurfa að sækja þjónustu á einn stað, til Reykjavíkur. Afleiðingarnar verða að mínu mati mjög slæmar ef við hættum að veita þessa þjónustu hér og beina öllum suður. Það ríkir hér kreppa, fólk hefur minna fé milli handanna og margir sem á þjónustu þurfa að halda munu ekki gera það ef leita þarf eftir henni um langan veg. Akureyri er stórt bæjarfélag og hér er mikil neysla í gangi. Ég hef verulegar áhyggjur af ástandinu sem skapast ef þessi þjónusta verður skorin niður. Að einhverju leyti mun fólk leita til félagsþjónustunnar, heilsugæslunnar og á sjúkrahúsið og margir munu ekki leita eftir aðstoð," segir Anna Hildur. „Sjúkdómurinn hverfur ekki þó við lokum, það má frekar búast við að örvinglun fólks aukist og vanlíðan."
Hún segir mikinn meðbyr í þjóðfélaginu varðandi málefni SÁÁ en málið standi og falli með ákvörðun Alþingis. „Við gerum ráð fyrir að endanleg ákvörðun liggi fyrir í janúar, en þangað til erum við í lausu lofti. Komi til þess að hér verði skellt í lás, geri ég samt ekki ráð fyrir að það verði fyrr en með vorinu," segir Anna Hildur.