Stærsti einstaki handboltaleikur ársins í karlaflokki fer fram í Laugardalshöllinni á morgun, laugardag, þegar Akureyri og Valur mætast í úrslitaleik Eimskipsbikarkeppni HSÍ kl. 16:00. Þetta er í fyrsta sinn í stuttri sögu Akureyrar Handboltafélags sem liðið kemst í úrslit bikarkeppninnar. Þetta er hins vegar í fjórða skiptið í röð sem Valsmenn leika til úrslita, en þeir urðu bikarmeistararar síðast árið 2009. Skyttan unga í liði Akureyrar, Guðmundur Hólmar Helgason, býður spenntur eftir leiknum.
„Þetta er stærsti leikurinn hingað til á mínum ferli og það er því gríðarlegur spenningur. Ég hef reyndar einu sinni spilað bikarúrslitaleik með 2. flokki en þá var ég bara kjúklingur,” segir hann. Guðmundi líst vel á að mæta Valsliðinu í úrslitum og er hvergi banginn.
„Valur er með mjög gott og reynslumikið lið en það þýðir ekkert annað en að vera bara kaldur. Maður tekur sína sjensa og þarf að sýna skynsemi í leiknum. Maður býr vel af því að hafa reynslubolta eins og Heimi (Örn Árnason) og Guðlaug (Arnarsson) við hliðana á sér. Það gefur manni mikið.”
Veltur á dagsforminuAnton Rúnarsson leikmaður Vals mætir sína gamla félagi í leiknum en hann lék með Akureyrarliðinu um tíma.
„Það má segja að þetta sé fyrsti alvöru bikarleikurinn sem ég tek þátt í að einhverju viti. Eigum við ekki segja að við eigum helmingsmöguleika á sigri. Akureyri hefur auðvitað spilað frábærlega í vetur en við komið sterkir inn á seinni hluta deildarinnar.Það er komið meira sjálstraust í liðið og það getur allt gerst í þessu,” segir Anton. Hann segir andlegu hliðina geta ráðið miklu á laugardaginn.
„Þetta veltur rosalega mikið á dagsforminu. Spennustigið getur skipt máli og þarf að vera rétt stillt. Svo þarf hausinn að vera svolítið kaldur og það þýðir ekkert að vera of hátt upp fyrir leikinn,” segir Anton.
Þá skal ítreka að sætaferðir verða í boði á leikinn á morgun með Sérleyfisbílum Akureyrar. Lagt verður af stað kl. 08:00 í fyrrmálið frá Íþróttahöllinni á Akureyri og haldið heim fljótlega að leik loknum. Ferðin kostar aðeins 4000 krónur báða leiðir.