„Það er rosalega spennandi að vera að fara á stórmót og mér líst bara ótrúlega vel á þetta,” segir Oddur Gretarsson handknattleiksmaður frá Akureyri. Hann er einn af 17 leikmönnum sem Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari valdi til þátttöku á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst í Svíþjóð í dag.
Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyrar, sat hins vegar eftir ásamt Sturlu Ásgeirssyni í Val. Oddur er vinstri hornamaður og kemur til með að leysa Guðjón Val Sigurðsson af þegar á þarf að halda.
„Guðjón er auðvitað lykilmaður í þessu liði en hann er ekki alveg hundrað prósent heill, þannig að það er vonandi að maður fái einhverjar mínútur,” segir hann. Oddur, sem verður 21 árs í sumar, er að fara á sitt fyrsta stórmót með A-landsliðinu en hann hefur gert góða hluti með yngri landsliðunum undanfarin ár.
Nánar er rætt við Odd Gretarsson í Vikudegi í dag.