Árið byrjaði með miklum umhleypingum og illiviðrum sem milduðust þegar á leið. Um mánaðamótin mars/apríl skipti mjög um veðurlag og við tóku norðlægar áttir sem voru lengst af ríkjandi það sem eftir lifði árins. Vor og sumar voru óvenju sólrík fyrir norðan.
Þurrkar háðu jarðargróðri víða um norðan- og norðvestanvert landið langt fram eftir sumri. Óvenjulegt hríðarveður gerði á Norðurlandi snemma í september og olli miklum fjársköðum og rafmagnsleysi auk samgöngutruflana.
Óvenju illviðrasamt var framan af nóvember, þá voru mikil snjóþyngsli um landið norðaustanvert og víða urðu fokskaðar.
Hiti og úrkoma
Árið var mjög hlýtt og var hið 14. Hlýjasta á Akureyri frá upphafi mælinga. Úrkoma á Akureyri var um 15% yfir meðallagi en sérlega úrkomusamt var þar í september og nóvember.
Sólskin
Árið var sérlega sólríkt bæði suðvestanlands og á Norðurlandi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1415 og hafa aldrei mælst fleiri á einu ári. Þetta er reyndar nærri 140 stundum meira en mest hefur mælst á einu ári áður á Akureyri. Þó eignaðist árið ekkert mánaðarmet sólskinsstunda.
karleskil@vikudagur.is