Snjómokstursmenn á Víkur- skarði haft í nógu að snúast

Víkurskarð hefur verið töluverður farartálmi í vetur, þar hefur oft verið ófært og þá sérstaklega að morgni, samkvæmt yfirliti úr dagbókum Vegagerðarinnar. Þá eru dæmi um að lögregla eða björgunarsveitir hafi þurft að aðstoða fólk sem lent hafði í vandræðum á ferð sinni um Víkurskarð.  

Fyrstu daga ársins, þ.e. 3., 4., 11., 12. og 13. janúar var Víkurskarð ófært að morgni. Þann 6. janúar sl. var stórhríð á Víkurskarði og mokstri hætt kl. 15.00 og daginn eftir var þar stórhríð og ófærð og ekkert mokað. Í desember sl. kemur fram í dagbókum að ófært hafi verið um Víkurskarð að morgni 17., 19., og 20. desember og þann 17. desember kemur eftirfarandi fram í dagbókarfærslu: "Kvartað yfir að ekki sé mokað í Víkurskarði en það var ákveðið að moka ekki vegna veðurs en lögreglu tilkynnt um fasta bíla og rútu í skarðinu." Þennan dag var mokstri hætt á milli kl. 9 og 10 að morgni og var skarðið þungfært fram eftir degi og alveg ófært eftir kl. 20.00.

Þessu til viðbótar hefur verið snjóþekja, stórhríð, skafrenningur eða skítaveður á Víkurskarði nokkra daga til viðbótar. Af þessu má sjá að snjómokstursmenn hafa haft í nógu að snúast við að halda leiðinni yfir Víkurskarð opinni.

Nýjast