Fyrstu daga ársins, þ.e. 3., 4., 11., 12. og 13. janúar var Víkurskarð ófært að morgni. Þann 6. janúar sl. var stórhríð á Víkurskarði og mokstri hætt kl. 15.00 og daginn eftir var þar stórhríð og ófærð og ekkert mokað. Í desember sl. kemur fram í dagbókum að ófært hafi verið um Víkurskarð að morgni 17., 19., og 20. desember og þann 17. desember kemur eftirfarandi fram í dagbókarfærslu: "Kvartað yfir að ekki sé mokað í Víkurskarði en það var ákveðið að moka ekki vegna veðurs en lögreglu tilkynnt um fasta bíla og rútu í skarðinu." Þennan dag var mokstri hætt á milli kl. 9 og 10 að morgni og var skarðið þungfært fram eftir degi og alveg ófært eftir kl. 20.00.
Þessu til viðbótar hefur verið snjóþekja, stórhríð, skafrenningur eða skítaveður á Víkurskarði nokkra daga til viðbótar. Af þessu má sjá að snjómokstursmenn hafa haft í nógu að snúast við að halda leiðinni yfir Víkurskarð opinni.