Hörpuslag segir af systkinum sem eru á leið í skólann þar sem á að lesa upp nýja, íslenska smásögu fyrir alla grunnskólanema á Íslandi. Á þessari örstuttu leið þurfa þau að keppa við tímann, glíma við dauðann, takast á kaldrifjaðar hulduverur í klettahöll og færa miklar fórnir. Sagan spyr áleitinna spurninga um sjálfstæði, frjálsan vilja og virði þess sem manni er kærast. Sagan verður lesin fyrir grunnskólabörn á öllum aldri í leikfimisölum og smíðastofum, á sal og í sundlaugum, í frímínútum og í dönskutímum, allt eftir því hvernig hver skóli kýs að fella upplesturinn að stundaskrám nemendanna.
Tilgangurinn er að fagna degi barnabókarinnar með notalegri sögustund og vekja um leið athygli á sameiningarmætti skáldskaparins. Með því að flytja söguna fyrir mörg þúsund lesendur í einu er mögulegt að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls.