Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) verður flutt frá Þýskalandi til Akureyrar um næstu áramót. Þetta var samþykkt á fundi nefndarinnar í Fairbanks í Alaska í gærkvöldi en Ríkisstjórn Íslands ákvað um miðjan febrúar, að tillögu forsætisráðherra, að veita fjármagni til reksturs skrifstofunnar til næstu fimm ára.
„Markmið Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og að veita ráðgjöf til stjórnvalda um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknarstofnanir og -samtök frá 23 löndum og hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins um málið.
Þar kemur jafnframt fram að á Akureyri sé fyrir öflugt norðurslóðasamfélag stofnanna og fyrirtækja sem gæti skapað ýmis konar samvirkni við IASC skrifstofuna. Rannís hefur frá upphafi átt aðild að IASC fyrir hönd Íslands. IASC hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á náttúru- og samfélagsbreytingum á norðurslóðum.
Skrifstofa norðurskautsvísindanefndarinnar hefur frá árinu 2009 verið staðsett í Potsdam í Þýskalandi en áður hefur skrifstofa IASC verið staðsett í Svíþjóð og Noregi. Skrifstofan er ábyrg fyrir daglegri starfsemi IASC.