Icelandairhótel Akureyri er frábærlega staðsett, í gamla Iðnskólanum og síðar Háskólanum á Akureyri, á horni Þingvallastrætis og Þórunnarstrætis. Hótelið mun bjóða uppá alls 101 herbergi, 63 herbergi verða tilbúin þann 1. júní n.k, og önnur 38 þann 1. júní 2012. Auk þeirra herbergja sem tilbúin verða á komandi vori verður jafnframt tekin í notkun veitingasalur og bar, en einnig eru áform um byggingu á fallegum hótelgarði í nánustu framtíð.
,,Ferðaþjónustan er allt í senn, gríðarlega mikilvæg, ört vaxandi og mjög spennandi starfsgrein og það er fagnaðarefni fyrir bankann að styðja metnaðarfulla uppbyggingu á þessu sviði. Þetta verkefni fellur mjög vel að því markmiði Landsbankans að hann sé hreyfiafl í samfélaginu og ýti undir fjárfestingu í arðvænlegum rekstri," segir Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjabanka Landsbankans,
„Við höfum lengi haft augastað á Akureyri sem vænlegri staðsetningu fyrir nýtt hótel í okkar keðju, en jafnframt viljað vanda valið á byggingu og samstarfsaðilum", segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandairhótela. „Icelandairhótel Akureyri er því kærkomin viðbót í okkar rekstur, og við hlökkum til að leggja okkar að mörkum við að byggja enn frekar upp það góða starf sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu Akureyrarbæjar fram til þessa", segir Magnea.