Ragnar Sverrisson skrifar
Mörgum brá í brún þegar til stóð að byggja skyndibitastað með lúgum auk bensínstöðvar á syðsta hluta miðbæjar Akureyrar fyrir norðan og neðan gamla samkomuhúsið. Sem betur fór var fallið frá þeim skipulagslega bútasaum þar sem ekkert var skoðað í samhengi við nágrennið. Í fyrirliggjandi tillögum um skipulag sama svæðis bregður nýrra við því horft er á það í heild norður að Kaupvangsstræti. Gert er ráð fyrir að varðveita byggingar sem fyrir eru, styrkja með því götumyndina og nýta syðsta hluta svæðisins fyrir hótel af hóflegri stærð. Þar fyrir norðan verði byggð tveggja hæða íbúðarhús með portbyggðum risum allt að Torfunesbryggju. Ef vel tekst til um hönnun hótelsins og þessara húsa vinnst margt. Hafnarstrætið verður með sínar gömlu og virðulegu byggingar og gönguleiðin greið frá kaupfélagshorninu til Höfnerssvæðisins og þaðan suður í Fjöru þar sem elstu húsin standa innvirðulega í röðum. Með því að byggja þessi lágreistu hús vestan við Drottningarbraut (39 til 45 íbúðir) hefur verið mynduð hljóðvörn í Hafnarstrætinu og þar verður því gott að dvelja og spóka sig í þögn og virðulegu umhverfi. Þá fyrst er hægt að tala um kosti þess að varðveita gömlu húsin og njóta en bakhlið þeirra flestra er ekkert augnayndi enda snéru þau að Pollinum í upphafi og flestum hulin nema sæfarendum. Þess vegna er hið nýja skipulag ekki ógnun við gömlu húsin í Hafnarstrætinu heldur forsenda þess að þau fái notið sín þegar búið verður að gera þeim til góða með lagfæringum færustu fagmanna.
Bílar og bílastæði
Eitt einkenna miðbæjar Akureyrar eru mikil bílastæðaflæmi. Víðast hvar eru slík stæði í miðbæjum sett undir yfirborð jarðar eða í sérstök bílahús og því frekar sem nær dregur kjörnum þeirra. Þar eru bílar yfirleitt ekki á víðavangi enda eru slíkar lóðir alltof verðmætar til þess eins að varðveita bíla dægrin löng. Í þeirri skipulagstillögu sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að bílastæði hótelsins fari að hluta til í kjallara þess og einnig verði bílageymslur í íbúðarhúsunum norðanvið. Auk þess verða þar bílastæði ofanjarðar og með því hefur þeim fjölgað talsvert frá því sem nú er á svæðinu enda þótt hús og híbýli með tvö til þrjú hundruð íbúa hafi einnig risið á sama stað. Þannig hefur verið haldið á þá braut í útjaðri miðbæjarins að koma bílum að hluta í geymslur og ætti það að vera til marks um að sú stefna verði framkvæmd að fullu þegar nær dregur kjarna hans; þar ættu bílar ekki að sjást nema í slíkum geymslum því umferð gangandi fólks á að hafa forgang. Það er einkenni vistvænna miðbæja að nýjar byggingar taka mið af þeim sem fyrir eru en eru jafnframt viðbót í takt við nútímann og mynda umhverfi þar sem mannlíf, útivist og viðskipti blómstra í skjólsælu og björtu umhverfi.
Áfram með smérið
Með þeim tillögum um syðsta hluta miðbæjarins sem fyrir liggja - og bæjarstjórn afgreiðir vonandi fljótt og vel - er búið að varða veginn til framhaldsins fyrir þann hluta miðbæjarins sem eftir stendur og mikil nauðsyn er að ljúka við eins og fjölmennt íbúaþing lagði til árið 2004. Með þessari tillögu er uppfyllt sú ósk þingsins að í miðbænum verði lágreistar byggingar í takt við eldri hús sem fyrir eru og myndað verði skjól og afslappað umhverfi þar sem bílar verði ekki áfram leiddir til öndvegis eins og nú er gert í öllu því flæmi bílastæða sem einkenna miðbæinn. Tillagan gæti því verið góður grunnur nýs deiliskipulags fyrir nyrðri hluta miðbæjarins þar sem bílar verða settir ofan í jörðina eða í bílahús, götur með lágreistum húsum verði beint í austur-vestur átt til að mynda skjól og birtu á svæðinu og hafnaraðstaða fyrir minni báta og skip verði gerð forsvaranleg. Hún er nú algjörlega óviðunandi eins og sást í haust þegar fjöldi manns var að bjarga skipum sem losnuðu upp í hvassri sunnanátt. Vonandi er það skipulag, sem nú er kynnt í syðsta hluta miðbæjar Akureyrar til marks um að bæjaryfirvöld ætli að sinna skipulagsmálum hans af meiri krafti en hingað til. Í því sambandi má benda á þá miklu vinnu sem unnin var á þessu sviði í framhaldi af áðurnefndu íbúaþingi. Öll þau gögn liggja nú í hillum bæjaryfirvalda eins og eitruð peð. Þar er margt nýtilegt og ráð að dusta af þeim rykið og bera saman við það skipulag sem hér er til umræðu. Menn sjá þá fljótt að þar fer margt ágætlega saman.
Höfundur er kaupmaður.