Sveppaganga Skógræktarfélags Eyfirðinga verður á Miðhálsstöðum á morgun, þriðjudaginn 19. ágúst og hefst kl. 17.30. Þau leiðu mistök urðu að röng dagsetning var tilgreind í auglýsingu í Dagskránni í liðinni viku sem framkvæmdastjóri félagsins biðst velvirðingar á.
Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri segir að þeim fjölgi með hverju ári sem sæki sveppagöngu félagsins, til að fræðast um sveppi og nytsemi þeirra. „En ég sé líka á umferð og og ummerkjum í skógarreitunum okkar að þeim hefur líka fjölgað sem eru sjálfum sér nógir og þarfnast ekki aðstoðar við sveppasöfnun og greiningu,“ segir hann.
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur mun sem fyrr fara fyrir sveppagöngunni. Áhugasamir eru hvattir til að brýna sveppahnífinn, dusta sveppakörfuna og draga fram góða skapið.
Þess má geta að Guðríður Gyða heldur úti síðu á Facebook sem heitir Funga Íslands - sveppir ætir eður ei sem sveppaáhugafólk ætti að kynna sér.