Skipulagsnefnd frestaði öðru sinni afgreiðslu á tillögu að deiliskipulagsbreytingu í miðbænum

Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar frestaði öðru sinni á fundi sínum í gær, afgreiðslu á tillögu að deiliskipulagsbreytingu á norðurhluta miðbæjar, Hólabraut - Laxagata. Hins vegar eru í fundargerð nefndarinnar frá því gær, birtar öðru sinni þær athugasemdir sem bárust við tillöguna. Alls bárust fjórar athugasemdir frá um 20 aðilum, í fjölmörgum liðum.   

Athugasemdirnar snúa ekki hvað síst að starfsemi ÁTVR á þessu svæði, hugmyndum um stækkun verslunarinnar og umferðarmálum. Íbúar á þessu svæði hafa ekki verið sáttir við þá hugmynd að stækka húsnæði Vínbúðarinnar og þar er reyndar almenn óánægja með staðsetningu hennar við Hólabraut, eins og fram hefur komið. Nú í vetur felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsnæði ÁTVR en það voru íbúar við Laxagötu sem sendu kæru til úrskurðarnefndar. Þá áttu framkvæmdir við viðbygginguna að vera hafnar í kjölfar útboðs. Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR segir að skipulagsmál  vegna fyrirhugaðra framkvæmda séu í ferli hjá Akureyrarbæ og að beðið verði eftir niðurstöðu í því máli áður en ný ákvörðun verður tekin. Aðspurð um hvort ekki komi til greina að reka tvær Vínbúðir á Akureyri, segir Sigrún Ósk að ekki sé gert ráð fyrir nema einni Vínbúð í bænum.

Nýjast