Skiptar skoðanar um lágmarksstærð sveitarfélaga samkvæmt könnun

Álíka stórir hópar eru hlynntir því og mótfallnir að í sveitarstjórnarlögum ætti að vera ákvæði um lágmarksstærð sveitarfélaga. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna sem framkvæmd var sl. haust fyrir innanríkisráðuneytið. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á málþingi um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem haldið var í Háskólanum á Akureyri í dag. Varðandi afstöðuna til lágmarksstærðar sveitarfélaga, er þetta veruleg breyting frá könnuninni árið 2006 þegar 73 prósent voru hlynntir ákvæði um lág­marksstærð. Þetta er þróunin í öllum samanburðarhópum og í sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa hefur afstaðan til laga um lágmarksstærð snúist úr því að meirihluti var hlynntur því í sterka andstöðu við slíkt.

Það voru þeir Grétar Þór Eyþórsson og Sveinn Arnarsson sem framkvæmdu könnunina en í samantekt er þetta helst að finna:

Staða sveitarstjórnarstigsins

  • Meirihluti telur þörf á að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi – 79 prósent. Þetta er þó ívið lægra hlutfall en í könnun frá árinu 2006. 
  • Meirihluti er á þeirri skoðun að fjöldi lítilla sveitarfélaga veiki sveitar­stjórnar­stigið. Þetta er þó lægra hlutfall en árið 2006.
  • Þegar spurt er hvort sveitarfélögin séu nægilega öflug til að sinna verkefnum sínum skiptast viðhorf í tvö horn og telja mun fleiri að svo sé en raunin var í könnun frá 2006. Viðhorfsbreytingin á sér þó síst stað í stærri og stærstu sveitar­félögunum. 

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

  • Meirihluti sveitarstjórnarmanna og þingmanna telur að æskilegt sé að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum frá ríkinu – 70 prósent telja það mjög eða frekar æskilegt. Þetta er ívið lægra hlutfall en í könnun frá 2006 þegar þetta hlutfall var 76 prósent. Athygli vekur að sveitarstjórnarmenn í minnstu sveitarfélögunum eru mun áhugasamari fyrir því að taka við verkefnum en áður.
  • Afgerandi meirihluti vill flytja málefni aldraðra til sveitarfélaga (72%) og þar á eftir heimahjúkrun (58%) og heilsugæslu (51%). Þar á eftir virðist helst vera áhugi fyrir flutningi framhaldsskólans (36%).
  • Í stærri og stærstu sveitarfélögunum er áhugi mestur fyrir þessum velferðar­málaflokkum, en í minni sveitarfélögunum virðist áhuginn meiri fyrir vega- og samgöngumálum, eftirlitsverkefnum og löggæslu. Líklega endur­speglast hér áherslumunur milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, þar sem t.d. samgöngumál eru að öllu jöfnu þýðingarmeiri.
  • Mat á reynslu af yfirtöku á málefnum fatlaðra áramótin 2010/2011 er jákvætt enn sem komið er. Alls telja 64 prósent þetta hafa tekist mjög eða frekar vel. Aðeins 5 prósent segja að illa hafa tekist til en margir eru skiljanlega óvissir ennþá. Ekki er teljandi munur á þessu eftir samanburðarhópum.
  • Um helmingur aðspurðra telur að flutningur verkefna til stærri sveitarfélaga eingöngu - svokallað tvöfalt kerfi - komi til greina. Þetta er svipað og árið 2006. Í minni sveitarfélögum er fólk fráhverfara þessu en áður, en í þeim stærstu og hjá þingmönnum virðist áhuginn vera mikill.
  • Talsverður áhugi virðist meðal aðspurðra á því að landshlutasamtök sveitarfélaga annist í auknum mæli rekstur umfangsmikilla verkefna. Alls telja 65 prósent það koma til álita. Ekki er marktækur munur þarna á milli samanburðarhópa. 

Um skipan sveitarfélaga og stærð

  • Álíka stórir hópar eru hlynntir því og mótfallnir að í sveitarstjórnarlögum ætti að vera ákvæði um lágmarksstærð sveitarfélaga. Þetta er veruleg breyting frá könnuninni árið 2006 þegar 73 prósent voru hlynntir ákvæði um lág­marksstærð. Þetta er þróunin í öllum samanburðarhópum og í sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa hefur afstaðan til laga um lágmarksstærð snúist úr því að meirihluti var hlynntur því í sterka andstöðu við slíkt.
  • Þeir sem telja að í lögum ætti að vera ákvæði um lágmarksstærð sveitarfélaga nefna að jafnaði 1925 íbúa sem æskilega lágmarksstærð sveitarfélags. Þetta er veruleg hækkun frá 2006 þegar nefnd meðalstærð var 1203. Æskileg lágmarksstærð hækkar í öllum hópum nema í allra minnstu sveitarfélögunum. Hækkun er þó sýnu mest meðal sveitarstjórnarmanna í stærstu sveitarfélögunum og hjá alþingismönnum sem telja að meðaltali að æskileg lágmarksstærð ætti að vera 3611 íbúar.
  • Fleiri en áður telja samstarf sveitarfélaga vera æskilegri kost en sameiningar sveitarfélaga. Hlutfall þeirra sem eru óvissir í þeim efnum hefur þó tvöfaldast frá 2006.
  • Miklar breytingar eru milli kannana 2006 og 2011 þegar spurt er um sveitarfélagaskipan á höfuðborgarsvæðinu. Nú telja 67 prósent breytingar á henni æskilega á móti 45 prósent áður. Þessi aukning staðfestist í öllum samanburðarhópum, sérstaklega í stærstu sveitarfélögunum og meðal alþingismanna. Áhugi sveitarstjórnarmannanna á höfuðborgarsvæðinu sjálfu fyrir breytingum hefur stóraukist frá árinu 2006. Alls hefur þeim sem telja breytingar æskilegar fjölgað úr 44 prósent í 60 prósent og þeim sem telja þær óæskilegar fækkað úr 30 prósentum í 8 prósent.
  • Alls telja 82 prósent þeirra sem vilja breytingu að sameina eigi höfuðborgar­svæðið í eitt sveitarfélag. Meirihluti þeirra vill þó skilyrða slíkt við upptöku hverfa­nefnda eða ráða. Þetta er aukning um 12 prósentustig frá 2006. Samtímis hefur áhugi á millistjórnsýslustigi dofnað frá 2006. Þegar litið er á viðhorfin eftir kjördæmum er aukning á áhuga fyrir sameininingu í eitt sveitarfélag mest meðal sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu sjálfu.  

Íbúalýðræði

  • Mikill meirihluti (65%) aðhyllist að kjósendur komi meira að ákvarðanatöku um mikilvæg mál með íbúakosningum. Sérstaklega eru það alþingismenn sem aðhyllast þetta. Á hinn bóginn telur mikill meirihluti (58%) einnig að íbúakosningar ættu einungis að vera ráðgefandi. Tæpur fimmtungur er þó óviss í þessum efnum.
  • Í nýju Sveitarstjórnarlögunum er kveðið á um að 20 prósent kosningabærra geti knúið fram almenna atkvæðagreiðslu (íbúakosningu). Sveitarstjórnir geti þó hækkað þennan þröskuld í 33 prósent. Í könnuninni nefna þátttakendur að meðaltali hlutfall þarna á milli. Sveitarstjórnarmenn nefna æskilegan þröskuld vera frá 29,6 – 32,4 prósent nema í stærstu sveitarfélögunum þar sem meðaltalshæð þröskuldarins er 27 prósent. Alþingismenn eru með lægsta meðaltalið, en þeir sem svöruðu tilgreina að jafnaði 25,4 prósent. Ljóst er því að almenn skoðun þátttakenda er að núverandi þröskuldur ætti að vera talsvert hærri en lögin kveða á um.
  • Alls eru það 35 prósent sem geta hugsað sér að gera niðurstöður íbúaþinga bindandi fyrir sveitarstjórnir. Fleiri, eða 46 prósent eru því þó mótfallnir.
  • Íbúaþing (5,41 af 7 mögulegum) og borgarafundir (5,39) fá hæstu mikilvægiseinkunn sem tæki til aukins íbúalýðræðis, en íbúakosningar (5,17) koma þar skammt á eftir. Þessi röð er mjög svipuð í öllum saman­burðar­hópum.
  • Sveitarstjórnarmenn í sveitarfélögum með fleiri en 1000 íbúa skora hærra en kollegar í þeim minnstu þegar saman er tekin einkunnagjöf fyrir mikilvægi fimm tækja til íbúalýðræðis. Sama gildir um þingmenn. Konur í sveitar­stjórnum og á Alþingi eru merkjanlega áhugasamari en karlar um íbúa­lýðræði. Áhugi á íbúalýðræði virðist hinsvegar ekki vera aldurstengdur. Sveitar­stjórnar­menn og þingmenn vinstri flokkanna, Samfylkingar og VG, virðast almennt áhugasamari um íbúalýðræði en kollegar þeirra í röðum Framsóknar­flokks og Sjálfstæðisflokks. 

Sveitarfélögin og efnahagshrunið

  • Hartnær 2 af hverjum 3 segja sitt sveitarfélag hafa þurft að ráðast í niðurskurð í kjölfar hrunsins. Þetta hlutfall er klárlega hæst í sveitarfélögunum með fleiri en 2500 íbúa eða 83-86 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu segja 87 prósent þessa sögu, en annarsstaðar mun minna.
  • Tæpur fimmtungur segir efnahagshrunið hafa haft verulega neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins og rúmur helmingur einhver neikvæð áhrif. Hæst hlut­fall þeirra sem nefna verulega neikvæð áhrif er á höfuðborgarsvæðinu eða 27 prósent.
  • Svo virðist sem mjög víða hafi hrunið leitt til breyttra vinnubragða í stjórnun sveitarfélaga. Alls telja 59 prósent svo vera. Þetta hlutfall er hærra í stærri sveitar­félögunum, sérstaklega með fleiri en 2500 íbúa.
  • Breyttir starfshættir felast í auknu samráði og meiri upplýsingagjöf en áður, bæði í sveitarstjórn og til almennings. Þetta á þó síst við í minnstu sveitar­félögunum, þar sem breytingar og áhrif af völdum efnahagshrunsins virðast almennt vera minni.
  • Á sama tíma og að samráð meirihluta og minnihluta hefur aukist hafa átök einnig aukist í stærstu sveitarfélögunum. Ekki er hægt að greina hvort þetta sé misjafnt milli málaflokka eða milli sveitarfélaga.

 

 

 

 

 

Nýjast