Skerðingu á heilbrigðisþjónustu í Hrísey mótmælt

Hverfisráð Hríseyjar mótmælir fyrirhugaðri þjónustuskerðingu á þjónustu Heilsugæslustöðvar Dalvíkur við íbúa Hríseyjar. Heilsugæslustöð Dalvíkur hefur boðað að frá og með 1. febrúar 2011 muni læknisþjónusta í Hrísey flytjast til Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík. Læknir hefur haft viðveru í Hrísey einu sinni í viku í eina klukkustund í senn. Í ályktun hverfisráðs er jafnframt bent á að meðalaldur íbúa hafi farið hækkandi undanfarin ár og ljóst að margir eigi erfitt um vik að sækja læknisþjónustu til Dalvíkur.  

"Þá sætir furðu að ekkert samráð skyldi haft við bæjaryfirvöld á Akureyri né hverfisráð Hríseyjar um skerðingu á þjónustunni heldur var breytingin tilkynnt með dreifibréfi undirrituðu af framkvæmdastjórn Heilsugæslustöðvarinnar. Hverfisráðið skorar á framkvæmdastjórn að endurskoða þessa ákvörðun og koma til viðræðna við bæjaryfirvöld á Akureyri og hverfisráð um framkvæmd þjónustunnar þannig að viðunandi lausn fáist."

Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun og þar var bæjarstjóra og framkvæmdastjóra Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri falið að taka upp viðræður við heilbrigðisráðuneytið.

Nýjast