SÍMEY fagnaði 25 ára afmæli

Stjórnarformenn SÍMEY hafa verið tveir frá upphafi, Baldur Dýrfjörð frá 2000 til 2003 og síðan hefur…
Stjórnarformenn SÍMEY hafa verið tveir frá upphafi, Baldur Dýrfjörð frá 2000 til 2003 og síðan hefur Arna Jakobína Björnsdóttir gegnt stjórnarformennskunni. Bæði voru þau í afmælishófinu í gær. Mynd óþh

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar – SÍMEY er 25 ára á þessu ári. Þessara tímamóta var minnst í afmælishófi í húsakynnum SÍMEY á Akureyri í gær. Afmælishófið var í beinu framhaldi af ársfundi SÍMEY fyrir árið 2024 en þar kom fram að starfsemin hafi gengið mjög vel á liðnu ári og reksturinn hafi skilað rúmlega 10 milljóna króna jákvæðri niðurstöðu.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði í ávarpi sínu í afmælishófinu að þörfin fyrir framhaldsfræðsluna hafi aldrei verið meiri en einmitt nú. Þörfin fyrir kerfi sem búi yfir bæði sveigjanleika og aðlögunarhæfni til að mæta mjög breytilegum og fjölþættum þörfum samfélags sé mjög mikil og fari vaxandi.

„Ég hóf störf hér um mitt ár 2006 sem náms- og starfsráðgjafi SÍMEY en þá var Fræðslumiðstöð atvinnulífsins að koma til sögunar og allt umhverfi og verkefni að taka miklum breytingum. Fyrstu tvö árin fólst starf mitt í að heimsækja vinnustaði, halda kynningar og taka ráðgjafarviðtöl við fólk í sínu starfsumhverfi. Þetta var ótrúlega gefandi, fólk var áhugasamt og þakklátt og maður fann sannarlega þörf og áhuga. Ég sakna þess stundum í stjórnunarstarfinu, því þessi samskipti við þátttakendur eru nánast alltaf jákvæð og ótrúlega gefandi. Það hefur verið ótrúlegur heiður að starfa í starfsumhverfi sem er svona mannbætandi og virðisaukandi á allan hátt. Ég vona sannarlega og trúi að framtíðin sé björt og okkur takist að halda vel utan um þetta kerfi í heild sinni og starfsumhverfi, því ég efa ekki að það sé mikilvægt og gríðarlega jákvætt fyrir samfélagið allt,“ sagði Valgeir m.a. í ávarpi sínu.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar og stjórnarformaður SÍMEY frá árinu 2003, rifjaði upp að stofnfundur SÍMEY hafi verið 29. mars árið 2000. Undirbúningur hafði staðið yfir síðan 1998 þegar atvinnumálanefnd Akureyrarbæjar hélt stefnumótunarfund og hratt af stað undirbúningi sem fulltrúar stofnana, atvinnulífsins og félagasamtök tóku þátt í. Sett var á fót verkefnastjórn sem skilaði tillögum í desember 1999 með drögum að samþykktum og öðru. Ýmislegt hafði verið í gangi á sviði sí- og endurmenntunar, t.d. Menntasmiðja kvenna, öldungadeildir í MA og VMA, Tölvufræðslan o.fl.

Arna Jakobína sagði mikilvægi SÍMEY ótvírætt í sí- og endurmenntun á Eyjafjarðarsvæðinu og fór hún yfir nokkrar tölulegar staðreyndir í því sambandi:

„Til marks um hversu viðamikil þessi starfsemi er má nefna að alls hafa um 900 einstaklingar farið í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY frá árinu 2010 – eða um 55 á hverju ári. Fjöldi náms- og starfsráðgjafarviðtala er 10 sinnum meiri á sama tíma. Viðtölin eru tæplega 9.000 eða um 600 viðtöl ár hvert. Sú tala sem er þó mögnuðust að mínum dómi er fjöldi þátttakenda í námi hjá SÍMEY frá árinu 2010. Þeir voru alls um 43.800 talsins eða um 2.920 ár hvert. SÍMEY er því sú menntastofnun á Norðurlandi – og þó víðar væri leitað – sem útskrifar flesta nemendur ár hvert. Þessar tölur segja meira en mörg orð um víðfeðmi starfseminnar og fjölmarga snertifleti hennar, bæði gagnvart einstaklingum og atvinnulífinu,“ sagði Arna Jakobína Björnsdóttir

Nýjast