Sigurður segir að opnað hafi verið fyrir innlagnir á þessar deildir en lokað var fyrir heimsóknir á þær í gær og fyrradag en væntanlega opnað fyrir heimsóknir í dag miðvikudag. Þá hafa aðrar deildir takmarkað heimsóknir eins og hægt er. Sigurður segir að 10-12 sjúklingar hafi smitast í heildina og svipaður fjöldi starfsfólks. "Þetta liggur þó ekki alveg fyrir því sumir starfsmenn hafa verið í fríi og aðrir tilkynnt veikindi. Þetta gengur hratt yfir og síðustu sjúklingarnir voru að losna úr einangrun í gær, þriðjudag. Við höfum heldur ekki fengið ný tilfelli af sjúklingum frá því í byrjun síðustu helgar. Við teljum okkur hafa náð fyrir þetta strax með því að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Starfsfólkið hér hefur staðið sig einstaklega vel og verið mjög vakandi," sagði Sigurður.
Þegar sýkingin kom upp í byrjun síðustu viku var lyflækningadeild lokað og handlækninga- og bæklunardeild skipt upp. Fyrsta tilfellið kom upp hjá sjúklingi en sýkingin blossaði svo upp sl. miðvikudag. Af þeim sökum var einungis um bráðainnlagnir að ræða á spítalann en aðalröskunin var vegna þess að stöðva þurfti svokallaðar valinnlagnir.
Nóróveirusýking er bráðsmitandi en gengur yfirleitt fljótt yfir. Fyrir fullfrískt fólk er þetta ekki meira en venjuleg uppgangs- og niðurgangspest. Hún getur hins vegar reynst fólki erfiðari ef það er mjög veikt fyrir.