Samtal um þjóðgildin og kristna siðfræði í Glerárkirkju

Eru þjóðgildin bara orðin tóm? Eiga þau erindi til okkar? Hvaða máli skipta þau? Hvernig tengjast hefðir og siðir í landinu tilvist okkar og framtíðarsýn? Þessar og fleiri spurningar verða ræddar á Akureyri á mánudagskvöldum í febrúar og mars. Frummælandi fyrsta kvöldið, 7. febrúar kl. 20:00, er Gunnar Hersveinn, höfundur bókarinnar ÞJÓÐGILDIN. Þátttaka er ókeypis og öllum opin.  

Umræðukvöldin fara fram í safnaðarsal Glerárkirkju á Akureyri. Það er Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi sem stendur að baki umræðukvöldunum. Þeim er ætlað að efla samtal og skilning á meðal ólíkra hópa í samfélaginu um þjóðgildin eins og þau birtast í bók Gunnars Hersveins. Þar eru þjóðgildin 12 frá Þjóðfundinum 2009 sett fram með hugleiðingum höfundar. Bókin er ein af níu bókum sem hlaut þann 31. janúar sl. tilnefningu til viðurkenningar hjá Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna. Í umsögn á vef Hagþenkis segir um bókina: ,,Hógvær en beitt rökræða um þau kjölfestuhugtök og gildi sem íslensk menning þarfnast við uppbyggingu þjóðar."

Þess er vænst að almenningur sýni þessari umræðu áhuga og að fólk taki sér tíma til þess að mæta á eitt eða fleiri kvöld, hlusta á framsögufólk og taka virkan þátt í umræðunni. Framsögufólk kemur meðal annars frá öllum stjórnmálaflokkum og samtökum sem eiga fulltrúa í Bæjarstjórn Akureyrar. Hvert kvöld hefst klukkan 20:00 í Glerárkirkju með helgistund. Hluti helgistundarinnar er umfjöllun um ákveðinn biblíutexta sem þykir kallast á við þema kvöldsins. Fyrir hálf níu er farið inn í safnaðarsalinn. Þar er þá komið að erindi viðkomandi fulltrúa stjórnmálaflokks (30 mínútur). Klukkan níu er boðið upp á kaffi og meðlæti og síðan sest niður við umræður þar sem þátttakendum er boðið að tjá sig og spyrja spurninga undir handleiðslu umræðustjórnenda. Kvöldinu lýkur rétt fyrir klukkan tíu með stuttri kvöldbæn.  

Nýjast