Samstarf um nám í heyrnarfræði mun bæta úr brýnni þörf

Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri, Willum Þór Þórsson fyrrverandi heilb…
Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri, Willum Þór Þórsson fyrrverandi heilbrigðisráðherra og Kristján Sverrisson framkvæmdastjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands undirrita samningin Myndir aðsendar

„Við erum virkilega stolt af þessu samstarfi og teljum að við höfum sýnt það í verki að vandamál þurfa ekki að vera óyfirstíganleg,“ segir Stefán Guðnason forstöðumaður Símenntunar Háskólans á Akureyri, en nám í heyrnarfræði hófst í fyrrahaust í fjarnámi frá Örebro háskólanum í Svíþjóð í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þetta var í fyrsta sinn sem námið er í boði á Íslandi. Einn nemandi hóf nám í fyrrahaust en nú ári síðar eru þeir átta. „Það er gott að fara örlítið út fyrir kassann, það getur leitt til skemmtilegra hluta.“

Mikil eftirspurn eftir þjónustunni

Stefán segir að við hafi blasað slæm staða hér á landi. Heyrnarfræði hefur ekki verið kennd á Íslandi og því hafa þeir sem það stunda farið til ýmissa landa til að ná sér í gráðu í heyrnarfræði. „Það eru fáir heyrnarfræðingar að störfum hér og því hafa myndast mjög langir biðlistar, enda er eftirspurn eftir þjónustunni mikil og á eflaust eftir að aukast frekar en hitt. Það var ljóst að við svo búið yrði ekki unað og leita þyrfti lausna til að ráða fram úr þessum vanda,“ segir hann, en leitað var til Símenntunar Háskólans á Akureyri sem þegar tók málið til skoðunar.

Stefán Guðnason

 Góð lausn

Stefán segir að leit að háskóla sem kenndi heyrnarfræði og væri tilbúinn til samstarfs hefði leitt til þess að samningur var gerður við Örebro háskóla, eftir ábendingu frá starfsmanni HTI sem hafði verið þar í skóla. Námið fór hægt en vel af stað. Það er sett upp sem blandað fjarnám og er samþykkt af heilbrigðisráðuneytinu. Verklegt nám fer fram á Heyrnar- og talmeinastöðinni í Reykjavík. „Þetta er góð lausn, því ljóst er að aldrei hefði verið hægt að setja upp slíkt nám hér á landi vegna mikils kostnaðar.“

Auk þess sem Íslendingum býðst að læra heyrnarfræði í fjarnámi við Háskólann í Örebro eru þar einnig nemendur frá norðanverðri Svíþjóð. Aðrir nemar eru í staðarnámi.

Áhugi fyrir hendi

Stefán segir að greinilegt sé að áhugi sé fyrir náminu, en um 40 manns sendu inn umsókn nú fyrir haustið 2025 og fengu 8 skólavist. „Það eru miklar vonir bundnar við að þetta samstarf leiði til þess að takist að manna betur stöður heyrnarfræðinga í nánustu framtíð, enda ekki vanþörf á, það er mikil uppsöfnuð þörf fyrir fleiri heyrnarfræðinga hér á landi.“

Nýjast