Samningur um sameiginlegt nám í fjölmiðla- og boðskiptafræði við félagsvísindasvið Háskóla Íslands og hug – og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri var formlega undirritaður á Akureyri í morgun. Um er að ræða samning sem innsiglar samstarf skólanna um diplóma og meistaranám á þessu sviði. Í samningnum segir að markmið hans sé að stuðla að „vandaðri menntun og rannsóknum í fjölmiðla- og boðskiptafræðum“. Undirskrift þessi kemur í kjölfar þess að nokkur reynsla hefur fengist af þessu sameiginlega námi, en námsframboð þetta var boðið sl. haust og hafa milli 15 -20 nemendur verið skráðir í það í vetur.
Fram kom við undirskriftina að góður rómur hefur verið gerður að náminu hjá nemendum og jafnframt hafa kennarar beggja skóla fagnað þessum samstarfsvettvangi, enda stuðli hann jafnframt að rannsóknarsamstarfi. Til marks um það má nefna að samhliða þessu sameiginlega námsframboði er verið að setja upp Rannsóknarstofnun um fjölmiðla og boðskipti, þar sem þessir tveir háskólar hafa fengið til liðs við sig ýmsa aðila sem tengjast fjölmiðlum í því skyni að skapa vettvang til ýmis konar rannsókna og ráðstefnuhalds. Við athöfnina í morgun var jafnframt undirrituð viljayfirlýsing skólanna um rannsóknarsamstarf á þessum vettvangi.
Það voru þau Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Daði Már Kristófersson, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem skrifuðu undir samninginn að viðstöddum Eyjólfi Guðmundssyni, rektor HA.
Daði Már hafði orð á því við undirritunina að samstarfið við Háskólann á Akureyri hafi gengið vel hingað til og að slíkt væri alls ekki sjálfgefið. „Samstarfið við Háskólann á Akureyri hefur eingöngu verið ánægjulegt og sýnir hvað það er mikilvægt að íslenskar stofnanir vinni saman,“ sagði hann. /EPE