Samorkuþing fjölmenn ráðstefna í orku- og veitumálum hefst á Akureyri á fimmtudaginn

Fjölsóttasta innlenda ráðstefan í orku- og veitumálum hefst á Akureyri á fimmtudaginn
Fjölsóttasta innlenda ráðstefan í orku- og veitumálum hefst á Akureyri á fimmtudaginn

Samorkuþing verður sett kl. 9.30 í Hofi n.k. fimmtudag. Þingið er haldið á þriggja ára fresti á Akureyri og hefur aðsóknin aldrei verið meiri en í ár. Óhætt er að segja að Akureyri verði undirlögð af starfsfólki orku- og veitufyrirtækja um allt land, en 620 manns eru skráð til leiks á þingið.   Frá þessu segir í tilkynningu frá Samorku.

Á dagskrá eru 140 fyrirlestrar um hin fjölmörgu viðfangsefni orku- og veitugeirans, en framundan eru gríðarlegar breytingar á orku- og veitukerfum landsins og miklar fjárfestingar.

Hægt er að sjá dagskrána í heild sinni hér https://samorkuthing.is/dagskra/ en við vekjum sérstaka athygli á opnunar- og lokamálstofu þingsins þar sem stór og mikilvæg málefni verða rædd með þungavigtarfólki.

Stutt lýsing á opnunarmálstofu, Samtal við samfélag: Orku- og veitufyrirtæki bera mikla ábyrgð á að vernda, varðveita og byggja upp orku- og veituinnviði sem þjóna samfélaginu og almannahagsmunum – hreint vatn, heitt vatn og stöðugt aðgengi að orku á öruggan og sjálfbæran hátt. Þessir innviðir verða ekki byggðir upp nema í sátt við samfélagið. Opnunarmálstofa Samorkuþings 2025 leggur áherslu á nauðsyn gagnsæis, samvinnu og trausts í öllum ákvörðunum sem snerta fólk og umhverfi. Þar sem einstaklingar og samfélög þurfa að gefa eftir – þarf skýra sýn á að það sé gert í þágu heildarinnar. Þessi málstofa markar upphaf að opnu og heiðarlegu samtali við samfélagið, um samfélagið og fyrir samfélagið. Málstofan hefst á ávarpi ráðherra og stjórnarformanns Samorku, en svo verða pallborðsumræður undir stjórn Breka Logasonar samskiptastjóra Orkuveitunnar með þeim Kristínu Lindu Árnadóttur, Guðmundi Inga Ásmundssyni og Páli Erland.

Stutt lýsing á lokamálstofu, Securing Iceland's Critical Infrastucture Resilience and Security in an European Context: Kastljósinu verður beint að orkuöryggi, vernd mikilvægra innviða og nýjum ógnum í alþjóðlegu samhengi. Framsögur flytja Kristian Ruby, framkvæmdastjóri Eurelectric og Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. Að loknum framsöguerindum taka þeir þátt í pallborðsumræðum með Herði Arnarssyni, forstjóra Landsvirkjunar, Sólrúnu Kristjánsdóttur framkvæmdastýru Veitna og stjórnarformanni Samorku og Þorvaldi Jacobsen framkvæmdastjóra kerfisstjórnunar hjá Landsneti. Umræðum stýrir Sveinn Helgason, nýráðinn verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku. Málstofan fer fram á ensku.

Nýjast