Samgöngur á norðurleiðinni úr skorðum vegna óveðurs og ófærðar

Vegna ófærðar og óveðurs á Öxnadals- og Holtavörðuheiði hefur áætlunarbílum Sternu sem áttu að fara frá Reykjavík til Akureyrar og frá Akureyri til Reykjavíkur kl. 08:30 verið frestað. Ákveðið verður kl. 11:00 hvort farið verður kl. 12:00. Þungfært er á Vatnsskarði en á Norðausturlandi er greiðfært en þó einhver éljagangur.  

Á Vesturlandi er hálka og skafrenningur á Bröttubrekku. Snjóþekja eða hálkublettir og éljagagnur er á flestum öðrum leiðum og verið er að hreinsa. Á Vestfjörðum er þungfært á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Hálfdáni, þæfingsfærð er á Kleifaheiði og Klettshálsi. Hálka og snjókoma er á Gemlufallsheiði en hálkublettir eða snjóþekja á felstum öðrum leiðum. Á Austurlandi er greiðfært á öllum leiðum en hálkublettir á Breiðdalsheiði. Á Suðausturlandi eru hálkublettir við Kirkjubæjarklaustur og snjóþekja þaðan og langleiðina að Vík. Hálkublettir og éljagangur er á Reykjanesbraut og á flestum leiðum á Reykjanesi. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Nýjast