Sameiginlegt þjónustusvæði um þjónustu við fatlaða

Bæjarstjórinn á Akureyri og sveitarstjórar Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Svalbarðsstrandarhrepps, undirrituðu í dag samning um sameiginlegt þjónustusvæði í Eyjafirði um þjónustu við fatlaða. Nú um áramót flyst sérþjónusta við fatlaða alfarið frá ríki til sveitarfélaga og gildir samningurinn sem undirritaður var á Akureyri til ársloka 2014.  

Akureyri hefur séð um málefni fatlaða frá árinu 1997. Á þjónustusvæðinu verður Akureyrarbær  leiðandi sveitarfélag sem veitir fötluðum á svæðinu öllu þjónustu á jafnréttisgrundvelli og verða ákvarðanir um veitingu hennar byggðar á mati á þjónustuþörf. Sveitarfélögin fimm bera sameiginlega ábyrgð á fjármögnun þjónustu innan svæðisins og greiða tekjuauka vegna þjónustu við fatlaða, þ.e. um 0,25% af útsvarsstofni til Akureyrarbæjar. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða renna til Akureyrarbæjar sem og tekjur af rekstri einstakra þjónustueininga. Stjórn og framkvæmd samningsins er í höndum Akureyrarbæjar.

Það voru þau Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Guðmundur Sigvaldson sveitarstjóri Hörgársveitar og Jónas Vigfússon sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, sem undirrituðu samninginn.

Nýjast