Árni Björn Árnason á Akureyri hefur hrundið úr vör heimasíðu, www.aba.is með það að leiðarljósi að safna saman
öllu því sem vitað er um bátasmíðar við Eyjafjörð. Vefurinn hefur það fram yfir bókina að hann er gagnvirkur á
þann hátt að lesandinn getur lagt sitt af mörkum til að koma á framfæri þekkingu sinni á þeim málum, sem vefurinn fjallar um.
Það framtak að setja vefinn í loftið er fyrst og fremst gert til að fá sem flesta til að leggja hönd á plóginn. Lesendur eru
því sérstaklega beðnir um að skoða vel meðfylgjandi lista yfir skip og báta, sem byggðir hafa verið á Eyjafjarðarsvæðinu
þannig að skrásetjari geti fyllt í þær eyður sem þar er að finna, segir m.a. á síðunni.
Hægur vandi er að koma upplýsingum til skrásetjara því að á hverri síðu vefsins er afmarkaður kassi fyrir skilaboð. Öllum
ábendingum verður jafnóðum komið á vefinn og er það von skrásetjara að hann þenjist út í líkingu við þann er
sat fjósbitann forðum. Vakin skal athygli á því að í nefndum listum er mikið um skammstafanir og þá sér í lagi þar sem
eigenda bátanna er getið. Stafar þetta af takmarkaðri línulengd en hrökkvi orð í næstu línu verður skjalið ruglingslegt og erfitt
aflestrar. Komi sú staða upp hjá lesandanum að hann átti sig ekki á eigendum einstakra báta þá er hægur vandi að hafa samband við
skrásetjara, sem mun leysa úr þeim vandkvæðum því að allir listar eru til á Excelskjölum án skammstafana. Til að auðvelda
aðgengi þeirra sem koma til með að skoða vefinn er rétt að geta þess að sérstakur listi er yfir stálskip, plastbáta, skútur og
tréskip. Skútur eru að vísu einnig innifaldar í tréskipalistanum en þeim lista er skipt í þrjá hluta vegna þess hversu
viðamikill hann er og erfiður í vinnslu. Listarnir eiga að öðru leyti að skýra sig sjálfir þannig að óþarfi er að eyða
fleiri orðum í þá.
Vefurinn inniber umsagnir um skipasmíðastöðvar og einstaka skipasmiði svo og báta og skip þessara aðila, sem byggðir hafa verið innan
útvarða Eyjafjarðar, Hvanndalabjargs að vestan og Gjögurs að austan. Eftir margra ára vinnu við söfnun upplýsinga um skipasmíðar í
Eyjafirði þá er Árna Birni orðið ljóst að það er ekki á eins manns færi að skrásetja þessa sögu. Leitar hann
því liðsinnis allra þeirra sem þetta lesa og búa yfir vitneskju um þessi mál. Í útgefnum skipaskrám er byggingarstaðar skipa
og báta getið en ekki hver eða hverjir hafa unnið verkið. Með birtingu þessa verks á netinu er vonast til að komist verði yfir þá
vitneskju, sem enn kann að vera til staðar hjá þeim, sem muna gamla tíma. Er sú stund rennur upp að ekki verður lengra komist í öflun
upplýsinga má vel hugsa sér afraksturinn í bókarformi finnist mönnum tilefni til. Um sjálfan vefinn er það að segja að hann mun
í upphafi byggjast upp af skráðum texta en með tímanum tekst vonandi að setja inn myndir af því, sem hann fjallar um. Þrátt fyrir að
mikið hafi unnist í söfnun upplýsinga þá er ljóst að mikið verk er enn óunnið. Vitneskja um báta og skipasmíðar
á Eyjafjarðarsvæðinu eru að falla í gleymskunnar dá og því er enn og aftur skorað á alla þá sem búa yfir vitneskju
um þessi mál að láta frá sér heyra og hjálpa þannig til með að halda sögunni til haga. Árna Birni er vel ljóst að
auðvelt er að nota aðgengi að þeim upplýsingum, sem birtar eru á síðunni. Verði slíkt gert er treyst á að heimilda verði
getið, segir hann á vefsíðunni sinni.