„Það eru kettir hér í bænum sem þyrfti að ná inn fyrir veturinn, en ég hef ekki reynt að ná þeim enda var planið hjá mér að sinna ekki þeim skyldum sem hvíla á Akureyrarbæ. Það hefur reynst ansi erfitt því fólk er mjög oft að senda mér ábendingar um ketti í bæjarlandinu,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir hjá Kisukoti.
Undirskriftarlisti er í gangi um þessar mundir þar sem segir að í rúm tvö ár hafi Akureyrarbær fjallað um málefni Kisukots og sent málið milli ráða og nefnda.
Lausn virtist vera í sjónmáli í vetur þegar umsjónarmaður Kisukots ásamt starfsmanni Umhverfis og Mannvirkjaráðs og bæjarlögmanni, var fenginn til að semja þjónustusamning við bæinn. „Eftir nokkra mánaða bið og enn meira flakk milli ráða ákvað bæjarráð að taka málið af dagskrá og þar með ekki semja við Kisukot“ segir í listanum sem nú er er í gangi. „Við undirrituð mótmælum þessari afgreiðslu bæjarins og förum fram á að málið verði tekið upp aftur.“
Til stendur að skila listanum inn til bæjarins 1. október næstkomandi.