SA Víkingar eru deildarmeistarar á Íslandsmóti karla í íshokkí eftir 7:3 sigur gegn Birninum í Egilshöllinni í kvöld. SA Víkingar hafa 38 stig í efsta sæti deildarinnar, fimm stigum meira en SR sem hafa 33 stig í öðru sæti þegar ein umferð er eftir.
Með sigrinum í kvöld tryggðu Víkingar sér einnig heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni gegn SR sem hefst í byrjun næsta mánaðar.
Andri Mikaelsson skoraði tvívegis fyrir SA Víkinga í kvöld og þeir Rúnar Freyr Rúnarsson, Stefán Hrafnsson, Ingvar Jónsson, Steinar Grettisson og Sigurður Sveinn Sigurðsson sitt markið hver.
Trausti Bergmann skoraði tvennu fyrir Björninn og Arnar Bragi Ingason eitt mark.