SA byrjaði leikinn af krafti og eftir aðeins þriggja mínútna leik var fyrsta markið komið og það gerði fyrirliði heimamanna, Jón Benedikt Gíslason, eftir sendingu frá Stefáni Hrafnssyni. Aðeins þremur mínútum síðar bætti SA við öðru marki og þar var á ferðinni Jóhann Már Leifsson eftir sendingu frá Jóni Benedikt.SR var í tómu tjóni og SA mun líklegra að bæta við marki en þeir að minnka muninn.
Heimamenn réðu lögum og lófum á svellinu og þegar tólf mínútur voru liðnar skoraði Rúnar Freyr Rúnarsson þriðja mark SA. Staðan 3:0 og útlitið að verða ansi dökkt fyrir gestina, en góð byrjun heimamanna virtist koma þeim algjörlega í opna skjöldu. SR náði minnka muninn með mikilvægu marki þegar fjórar mínútur voru eftir af 1. lotu en það gerði Svavar Steinsen.Dómarinn dæmdi markið af í fyrstu en breytti síðar dómnum. SR-ingar ærðust þegar dæma átti markið af og markaskorarinn Svavar fór þar fremstur í flokki og uppskar 10 mínútna brottvísun.Staðan 3:1 eftir fyrstu lotu.
Það var allt annað að sjá til gestanna í 2. lotu. Þeir áttuðu sig á því að hlutirnir gerðust ekki af sjálfu sér og sóttu hart að marki heimamanna. Það skilaði sér eftir fimm mínútna leik en þá fékk SR víti. Egill Þormóðsson tók vítið fyrir SR og skoraði af öryggi. Staðan 3:2SR lenti í miklum brottrekstra vandræðum og voru meira en minna einum til tveimur manni færri alla lotuna. SA náði ekki að færa sér það í nyt og því var allt í járnum fyrir þriðju og síðustu lotuna.
Stefán Hrafnsson kom SA í 4:2 með marki eftir fjögurra mínútna leik í þriðju lotu. Átta mínútum síðar kom mark leiksins og það gerði fyrirliði SA, Jón Benedikt Gíslason. Hann óð upp að marki gestanna og skoraði af öryggi eftir frábæran sprett. Staðan 5:2 fyrir SA og þriðja og síðasta lota hálfnuð.
Þegar átta mínútur lifðu leiks gerði Stefán Hrafnsson nánast út um leikinn er hann skoraði sitt annað mark í leiknum og sjötta mark SA. Staðan 6:2 og það urðu lokatölur leiksins.