Samtök atvinnulífsins hafa neitað að ganga að kröfum Framsýnar um að lægstu laun hækki þegar í stað í kr. 200.000,- en félagið sagði sig frá samstarfi við Starfsgreinasamband Íslands, þar sem önnur stéttarfélög innan sambandsins fyrir utan tvö, voru ekki tilbúin að halda kröfunni til streitu.
Samtök atvinnulífsins telja þessa hófværu kröfu vera út úr kortinu á sama tíma og forsvarsmenn samtakanna, sem mörkuðu launastefnu SA, þegja þunnu hljóði um sín ofurlaun sbr. bankastjóri Íslandsbanka. Alþýðusambandi Íslands, sem er í forsvari aðildarfélaga sambandsins í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld, ber að halda á lofti kröfunni um að lægstu laun taki mið af neysluviðmiði Velferðarráðherra. Annað væri ábyrgðarleysi.
Þá ítrekar Framsýn, enn og aftur á ályktun sinni, mikilvægi þess að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins horfi til landsins alls er varðar tillögur um atvinnuuppbyggingu. Því miður hefur lítið örlað á hugmyndum um raunhæfa atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Verði ekki búið að ganga frá kjarasamningum um helgina við Samtök atvinnulífsins hvetur aðalfundur Framsýnar til róttækra aðgerða á vegum Alþýðusambands Íslands til að knýja fram kjarasamninga sem nú þegar hafa verið lausir í fjóra mánuði. Aðgerða sem byggja á skipulögðum mótmælum og allsherjarverkföllum um land allt. Þolinmæði verkafólks er löngu þrotin, samninga strax, segir í tilkynningu Framsýnar.