"Fulltrúar L-listans geta einbeitt sér eingöngu að Akureyri og haft hagmuni bæjarins og íbúanna að leiðarljósi og þurfa ekki að taka tillit til flokkshagsmuna á landsvísu," segir Oddur. Hann segir að ekki sé ljóst á þessi stundu hvort hann leiði lista hreyfingarinnar áfram, það muni skýrast eftir áramót. "Það eina sem liggur fyrir er að L-listinn mun njóta minna krafta áfram og ég mun miðla af þeirri miklu reynslu sem ég bý yfir." Oddur neitar því hins vegar ekki aðrir flokkar í bæjarstjórn hafi leitað eftir starfskröftum hans fyrir næstu kosningar.
"Við vitum að það er fullt af fólki sem hefur áhuga á að starfa að bæjarmálum, utan flokksklafa og okkar markmið á næstuni er að ná til þessa fólks. Það sýndi sig vel við meirahlutaviðræðurnar eftir síðustu kosningar, hvernig t.d. Samfylkingin fór með kjósendur sína. Fulltrúar flokksins lugu því að þeim að fyrsta verkið yrði að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum en allir vita hvernig fór. Það kom líka vel fram þá og kom mér verulega á óvart, hversu mikil áhrif forystumenn flokkanna á landsvísu hafa innan einstakra flokksfélaga. Það var einmitt fyrir tilstuðlan þessara forystumanna sem meirahlutaviðræður við okkur og VG sigldu í strand.
Búið að eyðileggja bæjarstjóraembættið
Oddur segir að þær holskeflur sem dunið hafi yfir þjóðina sýni það og sanni að það sé eitthvað annað en almannaheill og eða heill bæjarfélagsins sem ráði ákvarðanatöku. Menn taki flokkinn fram yfir heildarhagsmuni og segir Oddur að það séu mörg dæmi um slíkt, líka á Akureyri.
"Þessi valdabarátta sem hefur verið í gangi, hefur m.a. orðið til þess að eyðileggja bæjarstjóraembættið á Akureyri. Þar sem menn hafa skipst á um að vera bæjarstjóri, eins og frekir krakkar. Þú mátt vera bæjarstjóri í dag, ég á morgun og hann hinn daginn. Einnig hvernig farið hefur verið með embætti forseta bæjarstjórnar, sem skiptimynt. Þetta er eitthvað sem við erum ekki hrifin af. Fyrirtæki sem veltir 11 milljörðum króna á ekki að vera stjórnað af öðrum en fagmönnum. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri bæjarfélagsins og það er þess vegna sem ég hef alltaf sagt, einn bæjarfulltrúa, að ráða eigi fagmann í starfið."
Oddur segir að flokkunum fjórum í bæjarstjórn, sé stjórnað af forystunni fyrir sunnan og það eigi eftir kosta Akureyringa ómældar fjárhæðir í framtíðinni. "Besta dæmið er menningarhúsið, þar sem samið var við ríkið um fasta krónutölu í byggingarkostnaði en ekki um krónu varðandi rekstur. Þarna voru sjálfstæðismenn hér að semja við flokksfélaga sína á landsvísu og hvernig staðið var að málum, getur kostað okkur um 200 milljónir króna á ári um ókomin ár."
Óvönduð vinnubrögð kostað stórfé
Oddur segir að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, sem voru í meirihluta á síðasta kjörtímabili, hafi mútað flokksfélögum sínum, varðandi nýbygginguna við Hlíð. Þeir hafi boðist til að borga 30% af byggingarkostnaði í stað lögbundinna 15%. Þetta hafi kostað aukaskatt á bæjarbúa upp á tæpar 200 milljónir króna. "Það var rokið í framkvæmdir á Þórssvæðinu, sem áttu að kosta rúmar 350 milljónir króna en heildarkostanaðurinn varð um einn milljarður. Öll þessi dæmi og fleiri um óvönduð vinnubrögð hafa kostað okkur stórfé, að ekki sé minnst á alls konar klúður í skipulagsmálum. Þetta hefur orðið til þess að ræna Akureyringa ærunni. Nú er lag fyrir bæjarbúa að kjósa eitthvað annað en fjórflokkana og við höfum verið gegnheil í okkar störfum. Það er uppi krafa meðal almennings að viðhafa persónukjör og þeir sem ekki vilja starfa innan stjórnmálaflokka eiga að koma til liðs við okkur," segir Oddur.