Reykskynjarinn sannaði gildi sitt

Slökkvilið Akureyrar var kallað að bænum Halllandi II í Vaðlaheiði á öðrum tímanum í dag, eftir að tilkynningin barst um að svartan reyk legði frá íbúðarhúsinu. Húsið var þá mannlaust en það var fólk í næsta húsi sem heyrði í reykskynjara og þegar það kom að húsinu lagði reyk út um glugga þess. Í ljós kom að pottur með barnapela hafði gleymst á eldavélinni og þegar vatnið var gufað upp bráðnaði pelinn ofan í pottinn með fyrrgreindum afleiðingum, að sögn Jóns G. Knutsen varðstjóra hjá Slökkviliði Akureyrar.  

Pottinum var komið út úr húsinu og segir Jón að enginn eldur hafi komið upp, heldur bara reykur. Aðeins pelinn og potturinn skemmdust, einhver lyktarmengun er í húsinu, sem slökkviliðið reykræsti. Jón segir að þarna hefði getað farið verr og að reykskynjarinn hafi sannað gildi sitt.

Nýjast