Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri að mestu í jafnvægi á liðnu ári

Rekstur Sjúkrahússins á Akureyri var að mestu í jafnvægi á liðnu ári, en þyngist nokkuð þegar á leið árið.  Í lok nóvember hafði stöðum fækkað að meðaltali um 14 á milli ára.  Gert er ráð fyrir að reksturinn í heild verði innan fjárheimilda.  

„Starfsemin á liðnu ári var að mestu í samræmi við áætlun, en í henni var m.a. gert ráð fyrir minni skurðstarfsemi en áður," segir Halldór Jónsson forstjóri. Innlögnum fjölgaði en legudögum fækkaði lítillega. Ferliverk, þ.e.  göngudeildarþjónusta drógust saman en fæðingum fjölgaði um 16% og hafa aldrei verið fleiri.

Forsendur starfsemis- og rekstraráætlunar fyrir þetta ár eru þær að starfsemin verði að mestu óbreytt miðað við fyrra ár og að ekki verði gripið til uppsagna.  Dregið verður úr starfsemi sjúkrahússins yfir sumarmánuðina, frá miðjum maí og fram yfir miðjan september og eins í kringum páska og jól.  Halldór segir að menn sjái ekki fyrir nú hvaða áhrif samdráttur á öðrum heilbrigðisstofnunum á Norður- og Austurlandi hafi á starfsemi sjúkrahússins á þessu ári, en líkur séu á að auka þurfi við þjónustuna sem aftur hefur í för með sér meiri kostnað. Því sé ljóst að endurskoða þurfi rekstrargrunn og starfsemi sjúkrahússins þegar líður á árið í ljósi fenginnar reynslu.

„Eins og staðan er núna ríkir óvissa um hvert umfang starfseminnar verður á þessu ári," segir Halldór.   Framlög til heilbrigðisstofnana á svæðunum í kring hafi lækkað töluvert. „En við vitum ekki enn hvaða áhrif það hefur á hverjum stað né heldur hver þörfin verður fyrir aukna þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri," segir Halldór.  Gott samstarf við heilbrigðisstofnanir á Norður- og Austurlandi verði að tryggja til að unnt sé að styrkja góða þjónustu á svæðinu.

Halldór segir skipulag heilbrigðisþjónustu hér á landi hafa tekið töluverðum breytingum á undanförnum árum. „Fjárveitingar lækka en á sama tíma eru gerðar kröfur um meiri skilvirkni. Til að mæta þessum kröfum hafa starfsmenn leitað leiða til að veita líkt og áður fjölbreytta og góða þjónustu fyrir minni kostnað. Stofnanir hafa sameinast, starfsfólki fækkar og verkferlar hafa verið endurskipulagðir.  „Því breytingatímabili sem við nú göngum í gegnum er ekki lokið," segir Halldór.

Sjúkrahúsið á Akureyri hafi mikilvægu hlutverki að gegna varðandi það að veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu auk almennrar sjúkrahússþjónustu í sínu umdæmi. Því þurfi að tryggja stöðu þess og treysta þjónustugrunninn þannig að það geti á hverjum tíma sem best mætt lagaskyldum og þeim væntingum sem landsmenn hafa til þjónustunnar á hverjum tíma.

Nýjast