Þær Petra Sif og Björg Jónína iðjuþjálfar hjá Heilsuvernd Hjúkrunarheimili, hófu haustið 2024 nám í Ráðgjöf um málefni einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra sem er ný námsleið hjá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands
Þær eru hluti af fyrsta hópnum sem sækir þetta nám á Íslandi en námið er sett upp af erlendri fyrirmynd og hefur lengi verið kennt á Norðurlöndunum. Námið er 60 eininga diplómanám með möguleika á áframhaldandi mastersnámi. Gerð er krafa um að þeir sem teknir eru inn í námið séu með bakgrunn í heilbrigðis- eða félagsvísindum. Námið er kennt í fjarnámi ásamt lotum og vettvangsnámi. Í náminu öðlast nemendur sérþekkingu á heilabilunarsjúkdómum, þar sem áhersla er lögð á líffræðilega þætti, siðfræði og persónumiðaða þjónustu. Nú á seinna námsárinu er farið meira í það sem snýr að ráðgjöfinni sjálfri og kennt hvað felur í sér að vera Heilabilunarráðgjafi.
,,Þörfin fyrir ráðgjöf af þessu tagi er svo sannarlega mikil og ánægjulegt að sjá hvað nemendahópurinn er dreifður um landið, því þörfin er víða til staðar"
Ráðgjafinn þarf oft að koma inn í aðstæður þar sem þörf er á að finna lausnir sem snúa að umhverfinu. Hann skoðar hvaða umhverfisþættir gætu haft neikvæð áhrif á skjólstæðinginn, og vinnur að því að setja upp áætlun um samskipti og aðferðir í samstarfi við starfsfólk, skjólstæðing og aðstandendur. Petra og Björg telja báðar að námið sé mjög þarft og hefðu viljað komast í það mikið fyrr.
,,Maður hélt að maður kunni ótrúlega mikið en hefur lært alveg gríðarlega mikið í viðbót"
Þær segja námið bjóða upp á mikil tækifæri. Námið hefur verið lengi í gangi á norðurlöndunum og eru þau mjög framarlega í persónumiðaðri þjónustu. Við erum mörgum árum á eftir og málaflokkur einstaklinga með heilabilun er lítt þekktur hérlendis. Þeir einstaklingar eru týndir í kerfinu og aðstandendur oft mjög einir og leitandi. Ráðgjafin er þá hugsaður þannig að hann grípi fólkið strax og verði þeirra málastjóri í þeim tilgangi að halda utanum þeirra mál. Ráðgjafinn aðstoða einstaklinga að halda áfram að vera virkir þátttakendur í lífinu. Hann ráðleggur aðstandendum, jafnvel vinnustöðum og sýnir fólki þau tæki og tól sem geta auðveldað hið daglega líf.
,,Oftast þarf að gera breytingar á okkur eða umhverfinu en ekki viðkomandi einstakling"
Einstaklingur á að fá tækifæri til þess að sinna áfram sínu daglega lífi eins vel og hægt er þrátt fyrir greiningu. Fara í búð, sund og banka, þá þarf samfélagið líka að vera tilbúið að taka á móti þeim. Því er fræðsla til samfélagsins ekki síður minna mikilvæg svo fólk viti hvernig á að bregðast við. Við þurfum að efla fræðslu til samfélagsins og byrja fyrr en við höfum gert hingað til. Það er mikilvægt að fara ekki með greininguna í felur.
,,Heilabilun er ekki tabú og á ekki að vera feimnismál"
Heilabilunarráðgjafi aðstoðar einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra hvernig hægt er að segja frá. Með því að segja frá er auðveldara að fá skilning og aðstoð. Þær segja að feluleikurinn sem fylgdi greiningu á heilabilun hér áður hafi farið minnkandi.
Petra og Björg leggja áherslu á mikilvægi þess að bæta samskipti við aðstandendur íbúa á hjúkrunarheimilum. Aðstandendur ganga oft í gegnum sorgarferli þegar maki/ættingi þeirra flytur inn á hjúkrunarheimili, verða óöruggir með sitt hlutverk og upplifa sig vera búnir að missa maka/ættingja sinn sem var. Þær leggja áherslu á mikilvægi heildrænnar nálgunar í þessum aðstæðum, ekki horfa eingöngu á einstaklinginn heldur líka að leiða þá sem standa honum næst í gegnum ferlið.
,,Þurfum að breyta því að ekki sé bara verið að koma í heimsókn heldur leyfa þeim að upplifa að þau séu að koma og taka þátt í lífi maka/ættingja síns"
Heilabilun er stærsta heilbrigðisvandamál heims og allar þjóðir eru að takast á við þetta. Það eru ekki margir með sérþekkingu hér á Íslandi og því mikilvægt fyrir okkur að mennta og eiga sérfræðinga á þessu sviði. Það eru margir að greinast núna og mikið af ungu fólki. Lítið er um úrræði fyrir unga einstaklinga með heilabilun hér á Akureyri annað en dagþjálfun á hjúkrunarheimilinu. Það vantar að brúa þetta bil á milli þeirra sem greinast snemma á ævinni og þeirra sem greinast seinna. Einstaklingar sem greinast yngri en 67 ára tilheyra hvorki flokki aldraðra né fatlaða, svo þörfin er mikil á skoða þeirra málaflokk betur og gera stefnumótun sem fyrst.
Petra og Björg segjast hafa farið mjög fljótt að nýta námið í störfum sínum. Þeim finnst námið hafa gert þær öruggari í að ráðleggja bæði aðstandendur og starfsfólki. Þær hvetja fólk sem brennur fyrir málefnum einstaklinga með heilabilun að sækja um námið.
Það er á hlid.is sem þetta kemur fyrst fram