Óvíst hvort Guðmundur Hólmar verði í leikbanni á föstudaginn

Það liggur ekki enn ljóst fyrir hvort Guðmundur Hólmar Helgason leikmaður Akureyrar verði í leikbanni gegn FH á föstudaginn í öðrum leik liðanna í úrslitum N1-deildar karla í handbolta. 

Guðmundur Hólmar fékk beint rautt spjald á lokasekúndunum í leik liðanna í gær er hann togaði Örn Inga Bjarkason hjá FH niður. Fordæmi eru fyrir því að leikmenn fari í leikbann fyrir þess konar brot en það er hins vegar óvíst í þessu tilviki.

Dómarar leiksins hafa ekki enn skilað inn skýrslu og ekki er tekið á agabrotum fyrr en skýrsla liggur fyrir. Að sögn forsvarsmanns hjá HSÍ mun málið væntanlega skýrast í dag.

Nýjast