Á fundi byggðaráðs Norðurþings á dögunum Óskaði Rebekka Ásgeirsdóttir S-lista eftir umræðu sjúkraflug frá Húsavíkurflugvelli.
Í bókun segir að eftir að ríkisstyrktu áætlunarflugi um Húsavíkurflugvöll var hætt í mars síðastliðnum sé staða sjúkraflugs um völlinn ekki örugg. „Gríðarlega mikilvægt er fyrir velferð og öryggi íbúa svæðisins að greið leið sé í viðeigandi heilbrigðisþjónustu og viðbragðstími sé sem stystur í neyðartilfellum,“ segir í bókuninni.
Byggðarráð tók undir með Rebekku að gríðarlega mikilvægt er fyrir velferð og öryggi íbúa og gesta svæðisins að greið leið sé í viðeigandi heilbrigðisþjónustu og viðbragðstími sé sem stystur í neyðartilfellum.
Byggðarráð fól sveitarstjóra að boða fulltrúa ISAVIA á fund ráðsins. Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar fagnar því að Rebekka hafi vakið athygli á málinu og segir að nú sé í gangi vinna hjá starfshópi sem fjallar um annars vegar áætlunarflugið og hins vegar sjúkraflugið.
„Varðandi áætlunarflugið þá eru hugmyndir um að koma Húsavík inn í fasa með Hornafirði, Ísafirði og Vestmannaeyjum. Mögulega náum við áætlunarflugi inn með þannig,“ segir Hjálmar og bætir við að varðandi sjúkraflugið sé þess krafist að ISAVIA standi við sínar skuldbindingar.
„Það er verið að benda ISAVIA á að þjónustan er ekki nægilega trygg til að halda úti sjúkraflugi. Við erum bara á þeim stað sem samfélag að við verðum að geta treyst á að ISAVIA standi við sínar skuldbindingar gagnvart því að hér sé hægt að fljúga sjúkraflug þegar þess gerist þörf og gott hjá Rebekku að vekja máls á því,“ segir Hjálmar.
Eru dæmi um að ekki hafi verið hægt að fljúga með hætt komna sjúklinga í sjúkraflugi? „Við vitum til þess að það hafi staðið tæpt og það vekur okkur til vissu um það að við þurfum að halda þessu á lofti og tryggja það að slíkt gerist ekki að sjúklingar komist ekki suður. Í fyrsta lagi býr hér margt fólk og svo er mikið af ferðafólki yfir sumarstímann. Við verðum að hafa aðgengi að traustu sjúkraflugi,“ segir Hjálmar að lokum