Tónlistarhópur Fjölmenntar mun undir stjórn tónlistarkonunnar Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur í samvinnu við atvinnutónlistarfólk og nemendur úr Tónlistarskólanum á Akureyri flytja þekkt íslensk dægurlög og þjóðlög, flutt verða ljóð og opnuð sýning á verkum meðlima úr Geðlist og nemenda við starfsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Að dagskrá lokinni mun Þroskahjálp bjóða upp á kaffi og vöfflur í tilefni dagsins.
Viðburðir á List án landamæra á Norðurlandi hófust í gær með vormarkaði Hæfingastöðvarinnar og stendur hann einnig yfir í dag föstudaginn 6. maí. Í dag klukkan 17 verður skógarvörðurinn "Einar" vígður í Kjarnaskógi og eiga félagar úr Geðlist heiðurinn að honum en sá ágæti hópur gerði einnig safnvörðinn sem stendur við Safnasafnið. Í Pennanum-Eymundsson verður Geðveggurinn opnaður, listaverk Ragnheiðar Örnu og er honum ætlað að vekja umræðu um geðheilbrigðismál.
List án landamæra á Norðurlandi stendur til 15. maí. Nánari upplýsingar um dagskrá eru að finna á slóðinni listanlandamaera.blog.is