„Ómetanlegt að sjá gleðina og þakklætið sem gestirnir sýna“

Gleðin sveif yfir vötnum á Fosshótel Húsavík um síðastliðna helgi. Myndir/Sunna Mjöll.
Gleðin sveif yfir vötnum á Fosshótel Húsavík um síðastliðna helgi. Myndir/Sunna Mjöll.

Það var heldur betur glatt á hjalla á Fosshótel Húsavík á föstudagskvöld  í síðustu viku þegar 160 gestir frá Norður- og Austurlandi slettu ærlega úr klaufunum þegar félagsþjónusta Norðurþings stóð fyrir sínu árlega Húsavíkurfestivali. Þetta var í 23. sinn sem viðburðurinn var haldinn og nýtur hann sívaxandi vinsælda meðal þátttakenda og aðstandenda þeirra.

Afar gefandi að undirbúa þennan viðburð

Húsavíkurfestival er árlegur viðburður sem Félagsþjónusta Norðurþings stendur fyrir og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur félagslegur viðburður fyrir fólk með langvarandi stuðningsþarfir. „Núna í ár var hann haldinn 19. september. Við höfum samband við öll sveitarfélög frá Hvammstanga og austur að Egilsstöðum og bjóðum einstaklingum í þeim sveitarfélögum 18 ára og eldri með langvarandi stuðningsþarfir að koma á þennan viðburð. Í ár komu hátt í 160 gestir frá Húsavík, Akureyri, Egilsstöðum og Sauðárkróki,“ segir Sunna Mjöll Bjarnadóttir, forstöðuþroskaþjálfi í málefnum fatlaðra í Norðurþingi, í samtali við Vikublaðið. Sunna hafði yfirumsjón með skipulagningu viðburðarins og segir undirbúninginn alltaf vera krefjandi en afar gefandi.

Sigþór og Sunna Mjöll á myndinni til vinstri og Kiddi og Anna María til hægri. Mynd/Arnór Elí.

Skemmtilegasti vinnudagur ársins

„Þetta er 23. festivalið sem haldið hefur verið hér á Húsavík og í áttunda skiptið sem ég kem að skipulagningu á þessum viðburði. Ég get fullyrt að þetta er alltaf langskemmtilegasti vinnudagur ársins hjá mér. Gleðin er svo mikil og tilhlökkun hefur verið í loftinu frá því á síðasta ári,“ segir Sunna og bætir við að árhátíðarstemning hafi verið yfir festivalinu. Hún segir að margir gestanna bíði spenntir allt árið eftir þessum degi og að það sé einstakt að sjá hversu mikið það skiptir þá máli að fá að hittast, skemmta sér og njóta samveru.

Sungið og dansað

„Já, algjörlega. Fólk hefur sig til og mætir í sínu fínasta pússi. Við byrjum á bingó og happdrætti, sem væri ekki hægt nema fyrir alla þá frábæru styrktaraðila sem koma að verkefninu. Svo er hlaðborð með aðalréttum, fjöldasöngur, íshlaðborð í eftirrétt og svo er ball,“ útskýrir Sunna og bætir við að þar hafi fjörið náð algleymingi. „Það var dansað og sungið með í öllum lögum. Allir geta því fundið eitthvað við sitt hæfi á festivalinu,“ segir hún.

Ómissandi viðburður

Aron Fannar og Bryndís Edda skemmtu sér konunglega. Það klæddu sig allir í sitt fínasta púss, líka kóngafólkið. Myndir/Sunna Mjöll.

Sunna segir að viðburður sem þessi sé afar mikilvægur fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir, enda komi aðgengismál oft í veg fyrir að þau geti tekið þátt í hefðbundnu félagslífi. „Það er svo virkilega gefandi að geta haldið viðburð fyrir fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem oftar en ekki hafa minni tækifæri til skemmtana t.d. vegna aðgengismála,“ segir Sunna og er þakklát Fosshótel Húsavík fyrir þeirra aðkomu að viðburðinum.

„Fosshótel á Húsavík á hrós skilið fyrir að taka þátt í þessum viðburði með þeim hætti að allir sem vilja komist og geti átt ógleymanlegt kvöld, sama hvort þau þurfi hjálpartæki eða ekki,“ segir Sunna. Hún segir að starfsfólk hótelsins hafi lagt sig fram við að gera allt aðgengilegt og skapa hlýlegt andrúmsloft fyrir alla gesti.

Þakklát fyrir stuðninginn

Aðspurð segir Sunna að undirbúningur og framkvæmd viðburðarins krefjist mikillar samvinnu og skipulags, en án stuðnings sveitarfélaga, styrktaraðila og samstarfsfólks væri þetta ekki mögulegt. „Það er ómetanlegt að sjá gleðina og þakklætið sem gestirnir sýna. Þetta er kvöld sem gefur öllum sem koma að því mikið, bæði gestum og starfsfólki,“ segir Sunna að lokum og vonar að þessi hefð haldi áfram um ókomin ár.

 

 

Nýjast