Þann 30. júní tóku 15 einstaklingar þátt í vinnustofu um vinnulag CR-lausnaleitar í Háskólanum á Akureyri. Þátttakendur komu alls staðar að af landinu. Þau starfa flest við stjórnun í leik- og grunnskólum.
Það voru höfundar vinnulagsins, kanadísku hjónin Lorna og Kurtis Hewson sem héldu vinnustofuna. Auk fyrirlestra þeirra hjóna tóku þátttakendur virkan þátt með samtölum og ýmiss konar verklegum æfingum sem reyndu á samvinnu og byggðu á reynslu þeirra úr eigin starfi.
Á vinnustofunni kom fram að vinnulagið er ekki sérstök viðbót í skólastarfi heldur er það þjálfun í að nýta betur það sem fyrir er í starfinu. Það er gert með skýru skipulagi og samstarfi þeirra sem starfa með börnunum og öflun og notkun gagna um starfið. Kurtis og Lorna lögðu áherslu á að hver skóli þyrfti að aðlaga vinnulagið að eigin starfi og þörfum skólans fyrir breytta starfshætti.
Ingileif Ástvaldsdóttir, aðjúnkt við Kennaradeild, sá um skipulagningu námskeiðsins hér á landi. Hún segir vinnustofuna hafa verið skemmtilega og markvissa þar sem það er augljóst að hjónin eru að miðla vel af þekkingu sinni og reynslu af því hvernig hægt er að byggja upp styðjandi lærdómsmenningu í skólum. „Hjónin eru reynslumikil, Kurtis hefur starfað sem skólastjóri og Lorna sem kennsluráðgjafi og leiðarljós þeirra, Every child deserves a team (öll börn eiga skilið teymi), skein í gegnum framsetningu þeirra á vinnustofunni. Boðskapurinn er að við sem störfum að menntun og farsæld barna getum notað það sem við nú þegar höfum í starfinu enn betur en við gerum þegar við temjum okkur skýrt skipulag til samtals og samvinnu um framfarir nemenda,“ bætir Ingileif við.
Í lok vinnustofunnar ræddu þátttakendur samhljóm vinnulagsins við framkvæmd laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og í þeirri umræðu kom fram að það myndi styðja við innleiðingu laganna. Þátttakendur voru sammála um að vinnustofan hafi verið gagnleg og að gaman hafi verið að kynnast vinnulaginu og öðrum þátttakendum. Þau sögðust vera tilbúin til að byrja á því Þekking á vinnulaginu nú til staðar að þróa vinnulagið í eigin skólum.
Aðspurð um framhaldið eftir námskeiðið segir Ingileif að nú sé þekking á þessu vinnulagi í Kennaradeildinni sem hægt er að miðla áfram til stúdenta sem einni leið til að byggja upp og styðja við lærdómssamfélag fagmanna. „Það er ljóst að hugmyndafræði vinnulagsins fellur vel að hugmyndafræði lærdómssamfélags og þróunar fagmennsku og skólastarfs sem eru leiðarstef í kennaranáminu við HA. Það er svo í höndum stúdenta okkar að nýta sér þessa þekkingu á vettvangi. Þar mun vinnulagið verða að veruleika og þróast miðað við aðstæður í hverjum skóla. Nokkrir þátttakendur vinnustofunnar komu af Norðurlandi og sumir þeirra höfðu einmitt kynnst vinnulaginu í framhaldsnámi sínu við HA. Þeir ákváðu svo að nýta tækifærið til að fræðast meira með því að mæta á vinnustofuna svo þau væru betur undir það búin að innleiða það í eigin starfi. Það verður fróðlegt fyrir okkur við kennaradeild HA að fylgjast með því,“ segir Ingileif að lokum.