Ökumaður fluttur á slysadeild eftir að bíll hans hafnaði á bílskúrsvegg

Ungur ökumaður var fluttur til aðhlynningar á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri eftir að hann missti stjórn á bíl sínum á Drottningarbraut á Akureyri og hafnaði á bílsskúrsvegg og girðingu við hús á horni Aðalstrætis og Drottningarbrautar á þriðja tímanum í dag. Ökumaðurinn var einn í bíl sínum en að sögn lögreglu er ekki vitað um meiðsli hans. Bíllinn er hins vegar mikið skemmdur ef ekki ónýtur en hann var fluttur með kranabíl af vettvangi.  

Bílskúrinn, sem er úr timbri og asbesti, er mikið skemmdur og einhverjar skemmdir urðu einnig á hlutum inni í bílskúrnum að sögn lögreglu, Ökumaðurinn var á leið suður Drottningarbraut þegar óhappið varð en að sögn lögreglu eru tildrög slyssins óljós.

Nýjast