„Það verður óvenju mikið um októberfest-dýrðir í landshlutanum á næstu vikum og mega Norðlendingar búast við dirndlum, leðurhosum, þýskum polkum, októberfest snarli og svo auðvitað eðal bjór frá frumkvöðlum beint úr héraði,“ segir Erla Dóra Vogler úr Tríó Akureyrar, en nú á næstunni er fyrirhugað að efna til viðburða í samvinnu við þrjú handverksbrugghús á norðanverðu landinu, en þau eru Segull á Siglufirði, Bruggsmiðjan Kaldi á Árskógssandi og Mývatn öl í Þingeyjarsveit.
Tríó Akureyrar skipa Jón Þorsteinn Reynisson, Valmar Väljaots og Erla Dóra Vogler, en þau hafa fengið til liðs við sig hina frábæru Ellu Völu Ármannsdóttur fyrir októberfestin, enda blásturshljóðfæri algjörlega ómissandi við svona tækifæri.
Heldur betur hægt að dilla sér
Leikið er á harmonikku, fiðlu, gítar, horn, trompet, cornet, blokkflautu, hristur, skeiðar, þríhorn og auðvitað er sungið. Tónlistin samanstendur af kokteil hinnar þýsk/austurrísku októberfest tónlistar og laga sem sungin eru á íslenskum réttarböllum. „Þannig að þarna er heldur betur eitthvað á ferðinni sem hægt er að dilla sér við og syngja með,“ segir Erla Dóra.
Tríó Akureyrar hefur áður staðið að hausthátíðum í samstarfi við kvenfélög á nokkrum stöðum á Norðausturlandi, en áheyrendur bentu á að það vantaði helst smá söngolíu til að fullkomna viðburðina. „Bjór er auðvitað orðinn órjúfanlegur hluti októberfesta og ættu þær veigar að ná að smyrja raddbönd viðstaddra.“
Fólk hvatt til að bæta í viðeigandi fatnaði
„ Á Norðausturlandi búum við svo vel að eiga nokkur úrvals handverksbrugghús sem hafa svo sannarlega fest sig í sessi. Saga þeirra og þróun hinna ýmsu bjórtegunda er spennandi og eflaust margir sem hafa notið þess að fara í bjórkynningar hjá þessum fyrirtækjum. Á októberfestunum munu skiptast á tónlist og kynningar frá viðkomandi brugghúsi, um sína starfsemi, sögu og um mismunandi bjórtegundir. Til að auka stemninguna er fólk auðvitað hvatt til að mæta í viðeigandi fatnaði og hver veit nema að verðlaun verði veitt til þeirra sem leggja sig fram í þeim málum.“
Þrjú októberfest framundan
Októberfestin verða haldin 27. september hjá Segli 67 á Siglufirði, 4. október í Bruggsmiðjunni Kalda á Árskógssandi og 31. október hjá Mývatni öl á Sel-Hóteli, Skútustöðum, en þar verður haldin mikil bjór og matarhátíð alla helgina.
Nánari upplýsingar um viðburðina eru aðgengilegar á facebook síðu Tríós Akureyrar og á heima- eða facebooksíðum Sel-Hótels Mývatns, Seguls 67 og Bruggsmiðjunnar Kalda. Uppbyggingarsjóður SSNE styrkti Tríó Akureyrar og handverksbrugghúsin þrjú til að halda októberfögnuði hjá hverju brugghúsi fyrir sig.