Óðinn sigraði í 2. deild í Bikarkeppni SSÍ

Bikarkeppni SSÍ var haldin í Reykjanesbæ um liðna helgi þar sem sundfélög landsins kepptu sín á milli í liðakeppni. Keppt var í 1. og 2. deild í karla-og kvennaflokki. Strákarnir í Óðni sigruðu í 2. deild og voru nálægt því að tryggja sig áfram upp í 1. deildina.

Til þess hefðu þeir þurft fleiri stig en liðið sem hafnaði í neðsta sæti í 1. deildinni sem var KR. Vesturbæingar hlutu hins vegar 9.994 stig á móti 9.849 stigum Óðins og því hélt KR sæti sínu í deildinni með naumindum. Sveit SH sigraði örugglega í 1. deild karla með 14.857 stig.

Stúlknasveit Óðins keppti í 1. deild og endaði í fimmta sæti með 11.518 stig en stúlkurnar í Ægi sigruðu með 14.532.

Nýjast