Oddur Gretarsson verður ekki meðal 16 leikmanna Íslands sem mætir Ungverjalandi á morgun í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramótinu í handbolta í Svíþjóð. Valið kemur nokkuð á óvart að því leytinu til að Guðjón Valur Sigurðsson verður eini vinstri hornamaðurinn í íslenska hópnum gegn Ungverjum.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari tók 17 leikmenn með sér en aðeins mega 16 leikmenn vera á hópnum hverju sinni. Guðmundur getur hins vegar tvisvar sinnum gert breytingar á hópnum sínum á meðan keppninni stendur og því á Oddur enn möguleika á því að koma við sögu á mótinu.