Nýtt sorphirðukerfi komið í notkun sunnan Glerár

Verið er að kynna nýtt sorphirðukerfi fyrir íbúum á Oddeyri  þessa dagana, en þetta nýja fyrirkomulag við sorphirðu á Akureyri hefur þegar verið tekið upp í flestum hverfum sunnan Glerár, fyrst í Lundarhverfi á liðnu hausti, þá Naustahverfi, Gerðahverfi, Suður- og Norður Brekku sem og Innbæ og Miðbæ.   

Næst er svo röðin komin að íbúum í Glerárhverfi að sögn Helga Pálssonar rekstrarstjóra Gámaþjónustu Norðurlands og verður byrjað á Holtahverfi. Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá því í byrjun september á síðastliðu ári var samþykkt að auka flokkun heimilissorps frá því sem áður var og auðvelda íbúum flokkun á endurvinnanlegu sorpi.  Það er gert með því að taka upp svonefnt tveggja íláta kverfi og fjölga grenndarstöðvum fyrir endurvinnsluefni í bænum.   Þar sem nýja kerfið hefur verið tekið upp eru tvenns konar ílát við hvert heimili, annars vegar fyrir óflokkaðan úrgang og hins vegar fyrir lífrænan.

„Við byrjum á því að ganga í hús og kynna nýja fyrirkomulagið fyrir íbúum, tunnurnar og lífræni dallurinn fylgja svo í kjölfarið," segir Helgi en Gámaþjónusta Norðurlands hefur fengið til liðs við sig vaska félagsmenn úr Kiwanishreyfingunni, foreldra barna í Lishlaupadeild Skautafélags Akureyrar og liðsmenn í meistraflokki Þórs.  „Við erum aðallega á ferðinni síðdegis og á kvöldin og okkur hefur verið vel tekið, mér finnst bæjarbúar almennt vera jákvæðir fyrir þessum breytingum og áhugasamir um að minnka umfang sorps," segir Helgi. Eftir að búið er að ganga í hús á ákveðnum svæðum eru ílátin send að heimilunum og segir Helgi að á stundum hafi liðið nokkur tími frá því kynning fór fram þar til ílátin bárumst. „Við höfum nú tekið upp nýtt skipulag og betri eftirfylgni þannig að það ættu ekki að koma upp tafir núna," segir hann.

Glerárhverfið er næst á dagskrá og geta íbúar þar búist við heimsóknum þar sem nýja fyrirkomulagið í sorphirðu verður kynnt.  Hafist verður handa í Holtahverfi, síðan farið í Hlíðarnar, þá í Síðuhverfi og loks Giljahverfi.  „Við stefnum á að ljúka þessu verki í febrúar," segir Helgi. Hann segir að sérlausnir þurfi í mörgum tilvikum fyrir fjölbýlishús, sorpgeymslur séu víða litlar og rúma ekki nýju ílátin.  „Við leysum þessi mál í samvinnu við íbúana og reynum að finna bestu lausnirnar á hverjum stað, en auðvitað getur þetta verið tímafrekt verkefni og fjölmargir húsfundir sem efna þarf til, við leysum þessi mál í sátt og samlyndi við íbúana." 

Nýjast