Nýtt handboltalið á Akureyri

Frá fundinum í gærkvöldi
Frá fundinum í gærkvöldi

Stofnfundur handknattleiksdeildar Hamranna fór fram í gærkvöldi og var þar rædd fyrirhuguð þátttaka liðsins í 1. deild karla í handknattleik. Vel var mætt á fundinn og greinilega mikill áhugi fyrir starfi Hamranna meðal íþróttafólks á Akureyri.

Einn af stofnendum deildarinnar, Siguróli Sigurðsson, fór yfir málin með fundargestum, hvernig vetrinum yrði háttað og hvernig liðið yrði byggt upp. Liðið verður að mestu byggt upp á leikmönnum sem hafa nýverið lagt skónna á hillunna vegna þess að aðeins eitt handboltalið hefur verið á Akureyri upp á síðkastið og mikil samkeppni um stöður í því liði. Þá mun Akureyri Handboltafélag vera í fullu samstarfi með Hömrunum, sem felst í því að lána unga og efnilega leikmenn til liðsins. Þá var það sérstaklega ítrekað að engin samkeppni yrði hjá Akureyri og Hömrunum um leikmenn, heldur væri liðið til þess að efla handboltann norðan heiða. 

 

Þjálfari Hamranna verður Þorvaldur Þorvaldsson, fyrrum leikmaður KA, Þór og Akureyri og honum til aðstoðar verður Gunnar Ernir Birgisson, ásamt fleirum. Líklegt þykir að Hamrarnir muni spila sína heimaleiki í KA-heimilinu en það er enn óljóst og undir ÍBA (Íþróttabandalagi Akureyrar) komið, þar sem þeir sjá um að raða niður í íþróttahús bæjarins. 

 

Nýjast