Nýtt 80 rýma hjúkrunarheimili mun rísa við Þursaholt 2 á Akureyri. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu samkomulag þess efnis í dag og skoðuðu byggingarstaðinn ásamt fulltrúum úr bæjarstjórn, öldungaráði og stjórn félags eldri borgara á Akureyri.
„Ég er afar ánægð með að nýtt hjúkrunarheimili rísi á Akureyri og óska Akureyringum hjartanlega til hamingju. Gríðarleg þörf hefur verið fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila á Íslandi og nú er verkstjórn tekin við sem setur málið á dagskrá. Uppbygging hjúkrunarheimila er nú hafin fyrir alvöru,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Það er ánægjulegt að sjá þetta mikilvæga verkefni verða að veruleika í góðu samstarfi við ríkið. Bygging nýs hjúkrunarheimilis er mikið framfaraskref fyrir Akureyri og skiptir máli fyrir alla bæjarbúa – ekki síst eldra fólk og aðstandendur þeirra. Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta þjónustu við eldri borgara og þetta verkefni er stór þáttur í þeirri vegferð,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar.
Samkvæmt samningunum útvegar Akureyrarbær ríkinu lóðina og á næstunni verður auglýst eftir aðila til að byggja hjúkrunarheimilið. Ríkið mun síðan leigja húsið með leigusamningi til 20-30 ára. Þursaholt er talin afar hentug staðsetning, þar sem innviðir eru þegar til staðar. Þá mun Akureyrarbær afhenda lóð við Þursaholt 4-12 fyrir byggingu íbúða og þjónustu fyrir eldra fólk byggt á hugmyndafræði um lífsgæðakjarna.
Miðað er við að framkvæmdir á Akureyri hefjist árið 2026 þannig að taka megi hjúkrunarheimilið í notkun í árslok árið 2028.