Nýju fötin keisarans

Jón Ingi Cæsarsson skrifar

Nú hefur L-listinn setið einn að völdum á Akureyri í rúmlega hálft ár. Listinn boðaði breytta tíma í stjórnmálum á Akureyri og kjósendur trúðu því að þarna væri komið stjórnmálaafl sem gæti breytt gömlu þreyttu flokkastjórnmálunum og fært nýja tíma í bæinn okkar.

En er það svo ? Þegar rýnt er í einstaka málaflokka er ekki hægt að sjá að nokkur breyting hafið orðið nema vera skyldi að öll umræða um stjórnmál og framtíðarsýn í bæjarfélaginu er horfin. Þegar skoðaðir eru einstakir málaflokkar er sem atburðarásin hafi stöðvast og stjórnmálamenn á Akureyri hafi lagt árar í bát. Skoðum nokkra málaflokka.

Umhverfismálin: Ekki hefur ein einasta bókun orðið til sem bendir til að eitthvað sé að gerast. Staðardagskrá 21 virðist ekki vera til umræðu en hana stóð til að endurskoða og endurnýja. Allir þekkja sorgarsöguna um úrgangsmálin þar sem Akureyringar eru settir afstastir í röð sveitarfélaga og þurfa að bera sinn heimilisúrgang sjálfir á gámastöðvar. Þegar skoðaðar eru bókanir má sjá að fá mál eru kláruð og flestu frestað eða ekki afgreitt.

Skipulagsmálin: Engin umræða hefur verið um skipulagsmál frá því í vor enda hefur L-listinn sett flest mál á „hold" og ýtt út af borðinu flestum þeim málum sem til uppbyggingar horfðu. Endurskoðun  Aðalskipulagins ýtt aftur til 2016 þó svo Skipulagsstofnun hafi talið fulla ástæðu til að endurskoða það enda var það endurskoðað 2005, fyrir hálfum áratug. Slíkt lýsir tómlæti og - eða pólitísku hugleysi. Forgangsröð listans vekur athygli og hann virðist reiðubúinn að eyða hundruð milljóna í gæluverkefni listans, Dalsbraut í stokk. Engin umræða er um sérmálefni nýjustu bæjarhlutanna, Hríseyjar og Grímseyjar.

Akureyrarstofa-atvinnumál. Akureyrarstofa, hugverk Samfylkingarinnar mun væntalega fá frið fyrir afturhaldhugmyndum en það stefnir í lausatök í atvinnumálunum og kosningaloforði L-lista um sérstaka áherslu á þann málaflokk er nánast ýtt út af borðinu.

Skólamál - málefni barna. Skólamálin eru í föstum skorðum en blikur á lofti sem gætu kostað fjölskyldurnar í bænum aukin útgjöld. Frítt í sund fellt burtu og ýmislegt bendir til að L-listinn hugi að sameiningu grunn og leikskóla sem gætu leitt til fækkunar starfsmanna. Mötuneyti skóla virðast þeim hugleikin þegar horft er til niðurskurðar.

Það væri hægt að fara enn nánar í einstaka málaflokka en ég læt það ógert að sinni. Meginmarkið þessa pistils er að vekja á því athygli að stjórnartök L-listans eru í engu sú nýlunda eða framfaraskref sem þeir boðuðu í kosningabaráttunni. Það er ekkert ferskt við þessa stjórnarhætti og að mörgu leiti virðist sem ýmsar stofnanir bæjarins séu að líða fyrir lausatök og stjórnleysi þessa undarlega stjórnmálaafls.

L-listinn er ekkert nýtt. Hann er fremur gamaldags og þröngsýnn. Það hefur komið berlega í ljós þegar skoðaðar eru bókanir frá í sumar, haust og vetur í öllum málaflokkum. Þeir halda sjó í besta falli í sumum málaflokkum og gefa eftir í öðrum þar sem lausatökin eru augljós. Sagan um „NÝJU FÖTIN KEISARANS" á við þegar vel er skoðað og horft til stjórnunar bæjarins þetta rúmlega hálfa ár sem liðið er frá kosningum. L-listinn er á góðri leið með að klúðra því einstaka tækifæri að hafa öll völd til að gera eitthvað nýtt. Keisarinn sem mætti til kjósenda í vor og lofaði gulli og grænum skógum og nýrri framtíð er berrassaður. Ég heyri það á mörgum sem settu atkvæði sitt við L að þeir hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum.

Höfundur er fyrrverandi varabæjarfulltrúi.

Nýjast