Ný hönnun bygginga við Viðjulund 1

Á neðri hæðum húsanna verða fimm íbúðir á hverri hæð og fjórar íbúðir á efri hæðunum
Á neðri hæðum húsanna verða fimm íbúðir á hverri hæð og fjórar íbúðir á efri hæðunum

Bæjarstjórn hefur nú samþykkt breytingar á skipulagi lóðarinnar við Viðjulund 1 á Akureyri en sú lóð er í eigu dótturfélags KEA og Húsheildar-Hyrnu.

Frá því lóðin var keypt fyrir tæpu ári síðan hafa staðið yfir breytingar á hönnun verkefnisins og hafa þær tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Við kaup lóðarinnar var búið að samþykkja skipulag sem fól í sér tvö hús, annað 5 hæða og hitt 6 hæða. Megin markmið með nýsamþykktum deiliskipulagsbreytingum er að opna fyrir möguleika á því að fleiri minni íbúðir rúmist á lóðinni heldur en fyrra skipulag gerði ráð fyrir þannig að markhópurinn verði allur almenningur sem vill búa í fjölbýli en ekki eingöngu færri og stærri íbúðir fyrir efnameiri aðila.

Á neðri hæðum húsanna verða fimm íbúðir á hverri hæð og fjórar íbúðir á efri hæðunum. Jafnframt eru breytingar gerðar á innkeyrslu á lóðina þannig að íbúar við Furulund verða nú ekki varir við nýja bílaumferð í götunni vegna þessa verkefnis. Hvoru tveggja eru breytingar til batnaðar að mati eigenda verkefnisins sem eru um leið þakklátir skipulags- og bæjaryfirvöldum fyrir samþykki þeirra á þessum breytingatillögum.

Fyrir liggur útlitsleg hönnun sem og hönnun á innra skipulagi en nú fer í hönd fullnaðarhönnun sem miðar að því að hægt verði að hefja framkvæmdir á lóðinni á vordögum. Reiknað er með jákvæðum og góðum undirtektum gagnvart þessu verkefni enda hefur ekki verið byggt nýtt fjölbýli á þessu eftirsótta svæði í nærri 30 ár.

Nýjast